Þann 14. september sl. barst Kauphöllinni beiðni frá stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. (VNST) um afskráningu hlutabréfa félagsins úr Kauphöllinni. Ágreiningur var með hluthöfum VNST um hvort afskrá eigi hlutabréf félagsins úr kauphöll. Stjórn VNST varð við beiðni Kauphallarinnar um að hluthafafundur fjallaði um beiðni um afskráningu VNST áður en Kauphöllin tæki ákvörðun í málinu, en hluthafafundur var haldinn hinn 8. nóvember 2007. Þá skilaði stjórn VNST greinargerð með nánari rökstuðningi um afskráningu, sbr. 18. gr. laga nr. 34/1998. Fullbúin greinargerð stjórnar VNST barst Kauphöllinni hinn 14. nóvember 2007. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 34/1998, sem í gildi voru þegar beiðni um afskráningu barst Kauphöllinni, er mælt svo fyrir að útgefandi opinberlega skráðra verðbréfa eða kauphallaraðili fyrir hans hönd geti óskað eftir því skriflega að þau verði felld af skrá kauphallarinnar. Skuli stjórn kauphallarinnar verða við því að fenginni skriflegri greinargerð fyrir þeirri ósk. Stjórnin geti ákveðið að bréfin verði ekki tekin af skrá fyrr en allt að eitt ár er liðið frá því að fullbúin greinargerð berist kauphöllinni. Hún geti einnig ákveðið að birta greinargerðina í heild eða að hluta. Þegar tekið er tillit til þess hversu mikilli andstöðu afskráning hlutabréfa í VNST hefur mætt af hálfu annarra hluthafa, er mat Kauphallarinnar að rétt sé að nýta þann frest sem 18. gr. laga nr. 34/1998 veitir Kauphöllinni til að fresta afskráningu hlutabréfa. Við úrlausn málsins ræður tillitið til hagsmuna minnihluta hluthafa mestu máli en meirihluta og minnihluta eigenda hlutabréfa í VNST greinir á um hvort beiðast eigi afskráningar. Þá hafa eigendur minnihluta í VNST fært sterk rök fyrir því að hagsmunir þeirra felist í því að hlutabréf í VNST verði áfram skráð í kauphöll. Að mati Kauphallarinnar verður ekki litið fram hjá þessum röksemdum. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða Kauphallarinnar að fresta skuli afskráningu hlutabréfa í VNST í eitt ár að telja frá því að fullbúin greinargerð barst Kauphöllinni hinn 14. nóvember 2007. Samkvæmt þessu verða hlutabréf í VNST ekki afskráð fyrr en 14. nóvember 2008.