Ár mikillar uppbyggingar að baki Helstu niðurstöður: • Hreinar vaxtatekjur 0,6 milljarðar króna • Þóknanatekjur 1,6 milljarður króna • Gjaldfærsla vegna fjárfestinga tengdum undirmálslánum 2,1 milljarðar króna • Tap ársins um 0,8 milljarðar króna • Heildareignir í árslok 34,3 milljarðar króna samanborið við 15,0 milljarða króna í ársbyrjun • Í árslok 2007 voru engar eignir bókfærðar í efnahagsreikningi sem tengjast húsnæðislánum í Bandaríkjunum • Eignir í stýringu 33,0 milljarður króna. • Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 18,5% DR. TRYGGVI ÞÓR HERBERTSSON, FORSTJÓRI ASKAR CAPITAL: „Á fyrsta starfsári okkar höfum við áorkað miklu og við lítum stolt um öxl. Hreinar vaxta- og þóknanatekjur námu 2,2 milljörðum króna og er það góður árangur á fyrsta rekstrarári. Fasteignaráðgjöf bankans gekk mjög vel og jafnframt var mikill vöxtur í eignaleigustarfsemi hjá dótturfélaginu Avant. Við stofnun Askar Capital var mörkuð sú stefna að sinna fjárfestingum og eignastýringu í sérhæfðum eignum (e. alternative assets). Þar falla m.a. undir fasteigna- og framtaksverkefni, vogunarsjóðir, fjárfestingar á nýmörkuðum og skuldabréfavafningar.“ Árið 2007 var ár uppbyggingar hjá Askar Capital. Bankinn réð til sín mikið af hæfu starfsfólki og byggði upp viðskiptasambönd víðs vegar um heiminn. Opnuð var viðveruskrifstofa á Indlandi og Askar fasteignaráðgjöf opnaði einnig í Rúmeníu og Bandaríkjunum til viðbótar við skrifstofu sem þegar var starfandi í Lúxemborg. Þá var unnið mikið starf í uppbyggingu upplýsingakerfa, húsnæðis höfuðstöðva og annarra innviða bankans. Áhersla félagsins er á fjárfestingar í fasteignum, innviðum (e. infrastructure) og í framtaksfjármögnunarverkefnum á nýmörkuðum. Aðstæður á fjármálamörkuðum heims hafa breyst verulega á síðustu mánuðum. Horfa fjárfestar nú í auknum mæli til annars konar fjárfestinga en hefðbundinna fjárfestinga í hlutabréfum og skuldabréfum. Stefna Askar Capital fellur vel að þessum umskiptum. Í byrjun ársins fjárfesti Askar Capital í skuldabréfavafningum tengdum lánum á bandaríska húsnæðismarkaðinum. Eins og kunnugt hafa aðstæður á bandaríska húsnæðismarkaðinum breyst mikið til hins verra og hafa fjárfestingar tengdar honum lækkað verulega í verði. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að gjaldfæra allar eignir bankans tengdar þessum eignaflokki til að taka af öll tvímæli um áhættu bankans. Nam gjaldfærslan um 2,1 milljörðum króna. Í lok ársins voru engar slíkar eignir bókfærðar á efnahagsreikningi félagsins. Ef ekki hefði komið til þessarar gjaldfærslu næmi hagnaður bankans um 0.9 milljörðum króna. Verkefni ársins 2008 eru margvísleg. Nýr framkvæmdastjóri hefur tekið við rekstri eignastýringarsviðs. Hefur hann víðtæka reynslu af uppbyggingu eignastýringar á alþjóðlegum vettvangi og eru gerðar miklar væntingar til þróunar eignastýringar á árinu. Unnið er að uppsetningu á sjóðum fyrir fagfjárfesta og eru nokkrir þeirra á lokastigi og er hafin sala inn í þá. Innra skipulag og starfsemi bankans verður styrkt auk þess sem unnið er að breytingum að á fjármagnsskipan í þeim tilgangi að auka jafnvægi í líftíma eigna og skulda. Miklir umbrotatímar eru nú á fjármálamörkuðum en við teljum að með þeirri stefnu sem Askar Capital hefur markað sér og þeirri uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað séu tækifærin mikil og þau ætlum við að nýta. Nánari upplýsingar veita: Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri í síma +354 - 412-8800 Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, +354 - 665-8801