Tap ársins € 29,3 milljónir • Vörusala € 1.384,4 milljónir á árinu og € 327,8 milljónir á fjórða ársfjórðungi • Samdráttur í tekjum 5,9% á árinu, samdráttur 8,5% á fjórða ársfjórðungi • Hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) € 28,3 milljónir á árinu og € 1,4 milljónir á fjórða ársfjórðungi • Rekstrartap (EBIT) € 2,1 milljón á árinu og € 14,8 milljónir á fjórða ársfjórðungi • Gjaldfærð virðisrýrnun € 11,8 milljónir • Tap € 29,3 milljónir á árinu og € 29,0 milljónir á fjórða ársfjórðungi • Handbært fé frá rekstri fyrir skatta og vexti € 57,2 milljónir • Heildareignir € 796,1 milljónir - eiginfjárhlutfall 16,6 % • Arðsemi eiginfjár neikvæð um 16,7% • Tillaga stjórnar um aukningu á hlutafé um € 30 milljónir að markaðsverði Finnbogi Baldvinsson forstjóri Icelandic Group: „Árið 2007 var Icelandic Group afar erfitt og þar af var fjórði ársfjórðungurinn með slökustu afkomuna. Það hagræðingarferli sem félagið hefur margkynnt að sé í gangi hefur dregist og voru upphafleg markmið um endurskipulagningu félagsins óraunhæf. Einföldun á flóknum rekstri félagsins með fækkun verksmiðja og söluskrifstofa er vel á veg komin. Aðgerðirnar hafa gert okkur kleift að setja rekstrareiningunum skýrari markmið og er árangur þessarar vinnu farinn að koma í ljós. Félagið er nú vel í stakk búið til að takast á við hlutverk sitt sem leiðandi matvælaframleiðandi í sjávarafurðum. Mikill samdráttur var í sölu Icelandic USA strax í upphafi fjórða ársfjórðungs 2007 og hafði efnahagssamdráttur í Bandaríkjunum veruleg áhrif á rekstur félagsins. Þá kom í ljós að rekstur Pickenpack Gelmer í Frakklandi var verri en áður hafði komið fram. Þetta ásamt fleiru leiddi til þess að Icelandic Group náði ekki EBITDA markmiðum sínum, eins og kynnt hafði verið í níu mánaða uppgjöri félagsins. Ég sé fram á að jafnvægi náist í rekstrinum á þriðja ársfjórðungi 2008 og að félagið verði rekið með hagnaði á árinu 2009. Félagið mun nú einbeita sér að rekstri og tími skuldsettra yfirtaka og kaupa á félögum er liðinn. Eitt megin verkefni Icelandic í dag er að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi félagsins sem einkennist af miklum hráefnishækkunum ásamt hækkandi fjármagnskostnaði með lækkun á öðrum rekstrarkostnaði og afurðaverðshækkunum. Sú staðreynd að stjórn félagsins hefur samþykkt að leggja fyrir aðalfund € 30 milljón hlutafjáraukningu, felur í sér sterk skilaboð til markaðarins. Með þessu er stjórn félagsins að sýna með áþreifanlegum hætti að hún stendur heilshugar á bak við þau áform sem uppi eru um einföldun á rekstri félagsins. Þetta er líka traustsyfirlýsing á þau markmið sem sett hafa verið fram um hagnað af rekstri á árinu 2009.” Frekari upplýsingar veitir: Finnbogi A. Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group S: +49 1723 198 727
- Stjórn Icelandic Group samþykkir hlutafjáraukningu um € 30 milljónir að markaðsverði
| Source: Icelandic Group hf.