2007


Samson er eignarhaldsfélag og er tilgangur þess almenn fjárfestingastarfsemi og
skyldur rekstur.  Félagið er eigandi tveggja dótturfélaga Samson Properties ehf
og Ópera fjárfestingar ehf.  Þar sem fyrir lá í árslok 2007 að Samson
Properties ehf. yrði selt út úr samstæðunni á 1. ársfjórðung 2008 er starfsemi
þess félags sýnd sem aflögð starfsemi í árslok 2007.  Samstæðureikningur Samson
eignarhaldsfélags ehf. samanstendur því af reikningsskilum móðurfélagsins og
Óperu fjárfestingar ehf.  Fjárfestingafélagið Ópera fjárfestingar ehf. er
eigandi að um 25% eignarhluta í Fjárfestingarfélaginu Gretti hf. Samson
Properties ehf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í rekstri, þróun og
fjárfestingum í fasteignum og fasteignatengdum verkefnum í Evrópu.  Stofnað
hefur verið nýtt félag, Novator Properties sem keypt hefur allar eignir
félagsins og yfirtekið skuldir þess.  Það hefur nýlokið hlutafjáraukningu þar
sem hópi öflugra fjárfesta var boðið að ganga til liðs við félagið. 

Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og er
það í fyrsta sinn sem samstæðan birtir ársreikning sinn með þeim hætti. 
Ársreikningar samstæðunnar hafa undanfarin ár verið gerðir í samræmi við lög um
ársreikninga og íslenskar reikningsskilavenjur.  Innleiðing alþjóðlegu
reikningsskilastaðlanna hafði óveruleg áhrif á fjárhagsstöðu samstæðunnar og
ekki voru gerðar breytingar á samanburðarfjárhæðum eigin fjár og afkomu
samstæðunnar eins og þær voru birtar samkvæmt íslenskum reikningsskilavenjum
fyrir árið 2006. 

Eignarhluti móðurfélagsins í Landsbanka Íslands hf. var 4.559 m.kr. að
nafnverði í árslok og nam hann 40,73% af heildarhlutafé bankans.  Markaðsverð
eignarhlutans nam 161.846 m.kr. í árslok en bókfært virði hans er 78.421 m.kr.
en beitt er hlutdeildaraðferð við bókun eignarhlutans.  Gengi hlutafjár í
Landsbanka Íslands hf. hækkaði um 34% á  árinu 2007. 

Tap félagsins á árinu 2007 nam 5.750 m.kr. samanborið við 13.221 m.kr. hagnað á
árinu 2006.  Beitt er hlutdeildaraðferð við að gera grein fyrir eignarhluta
félagsins í Landsbanka Íslands hf. og færast 16.281 m.kr. til tekna. 
Markaðsvirði eignarhlutans jókst hins vegar um 41.031 m.kr. á árinu.  Félagið
færir afleiðusamninga á markaðsvirði og því kemur fram gjaldfærsla að fjárhæð
15.632 m.kr. sem að stórum hluta er vegna styrkingar íslensku krónunnar á
árinu.  Sem alþjóðlegt fjárfestingafélag beitir félagið gengisvörnum til að
styðja við eign félagsins í Landsbanka Íslands hf. og draga úr gengisáhrifum á
eignir félagsins í evrum talið.  Þar sem félagið beitir hlutdeildaraðferð á
eign sína í bankanum er hækkun á markaðsverði eignarinnar ekki færð að fullu á
móti þessu tapi. 

Bókfært eigið fé í lok árs 2007 nam 19.319 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og
lækkaði það um 28,7% frá árslokum 2006.  Ef eignarhlutur félagsins í Landsbanka
Íslands hf. væri færður til eignar á markaðsverði væri eigið fé félagsins
87.728 m.kr. að teknu tilliti til tekjuskattsáhrifa og eiginfjárhlutfall þá
46,56%.  Í árslok 2006 var eigið fé félagsins skv. sömu aðferð 73.063 m.kr. og
hefur því aukist um 20% á árinu. 


Helstu stærðir úr ársreikningi félagsins eru eftirfarandi (fjárhæðir eru í
milljónum króna): Sjá viðhengi. 

Attachments

samson 12 2007.pdf samson toflur i tilkynningu 31 12 2007.pdf samson tilkynning.pdf