Ársreikningur Grindavíkurbæjar og stofnana fyrir árið 2007 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Grindavíkur þann 16. apríl 2008. Samkvæmt lögum ber að fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum og verður seinni umræða þann 14. maí 2008 og á þeim fundi er samþykkt bæjarstjórnar á ársreikningnum fyrirhuguð. Ef bæjarstjórn samþykkir ársreikninginn í fyrirliggjandi mynd og við afgreiðslu og samþykkt bæjarstjórnar koma ekki fram mikilvægar viðbótarupplýsingar, sem geta haft áhrif á gerð ársreikningsins og /eða niðurstöður hans, munu endurskoðendur árita ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun. Niðurstöður málaflokka eru að mestu í samræmi við áætlanir. Helstu frávik í rekstri í samanteknum reikningsskilum eru eftirfarandi: - Söluhagnaður af hlutabréfum 58,9 millj. kr. umfram áætlun. - Fjármunatekjur 26,2 millj. kr. umfram áætlun - Fjármagnsgjöld 10,6 millj. kr. umfram áætlun - Rekstrartekjur 40 millj. kr. umfram áætlun. Aðallega vegna hærra framlags frá Jöfnunarsjóði - Rekstrargjöld 33 millj. kr. undir áætlun - Afskriftir eru 14 millj. kr. umfram áætlun. Helstu liðir í rekstri málaflokka eru launaliðir. Launamenn hjá Grindavíkurbæ og stofnunum voru 156 í 123 stöðugildum á árinu 2007. Laun og launatengd gjöld voru 594.414 millj. kr. Þar af eru laun bæjarstjórnar, bæjarráðs og bæjarstjóra 27,9 millj. kr.