- Stjórn félagins telur að afskráning félagsins þjóni hagsmunum félagsins og hluthöfum þess best - Hluthafar eiga kost á að halda hlutum sínum í FL Group eða selja þá fyrir hluti í Glitni banka Reykjavík, 1. maí 2008: Stjórn FL Group hefur samþykkt að boða til hluthafafundar þann 9. maí næstkomandi og leggja fyrir hluthafa félagsins tillögu um skráningu félagsins úr kauphöll OMX Nordic Exchange á Íslandi (“OMX”). Að fengnu samþykki hluthafafundar mun FL Group gera hluthöfum tilboð um að kaupa hluti þeirra í FL Group og greiða fyrir þá með hlutum í Glitni. Um 83% hluthafa félagins hafa þegar afsalað sér rétti til tilboðsins og verða því áfram hluthafar í FL Group. Stjórn FL Group telur að skráning félagsins úr kauphöll OMX þjóni hagsmunum félagsins og hluthöfum þess best og veiti stjórnendum félagsins færi á að leggja frekari áherslu á langtímamarkmið. Síðustu mánuði hefur farið fram gagnger endurskoðun á fjárfestingastefnu og rekstri FL Group en félagið leggur nú áherslu á stöðugar langtímafjárfestingar og fjárfestingar í óskráðum félögum. Afskráning mun veita framkvæmda¬stjórn félagsins sveigjanleika til að horfa til lengri tíma í uppbyggingu félagsins og minnka kostnað og umsvif sem fylgja því að vera skráð félag. Afskráningarferli Samþykki 2/3 hluthafa þarf til þess að afskráningarferlið geti hafist. Að fengnu samþykki hluthafafundar þann 9. maí mun hluthöfum standa til boða að halda hlutum sínum í FL Group sem verður óskráð félag eða selja hluti sína í FL Group og fá greitt fyrir með hlutum í Glitni banka. Um 83% hluthafa FL Group hafa þegar afsalað sér rétti til selja bréf sín í skiptum fyrir bréf í Glitni og munu því verða áfram hluthafar í FL Group. Kaupverð hluta í FL Group í tilboði til hluthafa verður 6,68 á hlut sem var meðalgengi FL Group í aprílmánuði 2008 og gengi á hlutum í Glitni verður 17,05 á hlut sem var lokagengi Glitnis þann 30. apríl 2008. Skiptihlutfallið í tilboði til hluthafa verður því 0,3918 hlutir í Glitni banka fyrir hvern hlut í FL Group. FL Group hefur gert samkomulag við Jötunn Holding ehf. um rétt FL Group til kaupa á hlutum Jötuns í Glitni sem nota skal í viðskiptunum. Þessi viðskipti hafa því engin áhrif á 31,97% eignarhlut FL Group í Glitni eða stöðu Glitnis sem einni af kjarnafjárfestingum FL Group. Hluthöfum, sem skráðir eru í hluthafaskrá félagsins í lok dags 8. maí, gefst færi á að skipta á bréfum sín í FL Group fyrir bréf í Glitni á tímabilinu frá 9. maí til kl. 16.00 þann 21. maí 2008. Stefnt er að því að ljúka afskráningarferlinu sem fyrst í kjölfar þess að tilboðið rennur út. Glitnir banki hefur umsjón með viðskiptunum og eftir 9. maí geta hluthafar fengið frekari upplýsingar og aðstoð í síma 440 3725 og á vefsíðu bankans, www.glitnir.is. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group: „Afskráning FL Group mun veita stjórnendum félagsins tækifæri til að leggja meiri áherslu á langtímamarkmið og minnkar einnig áhrif vegna skammtímamarkmiða sem tengjast hlutabréfamarkaði. Sú staðreynd að um 83% hluthafa félagsins hafa þegar ákveðið að halda hlut sínum í FL Group að afskráningu lokinni sýnir vel þá trú sem þessir aðilar hafa á FL Group, stefnu stjórnar og framkvæmdastjórnar. Þeir hluthafar sem kjósa fremur að eiga hlut í skráðu félagi hafa möguleika á að fjárfesta í Glitni, einni af kjarnafjárfestingum FL Group, sem við getum óhikað mælt með.“ Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group: „Síðastliðna mánuði hefur verið unnið markvisst að endurskipulagningu fjárfestingasafns og reksturs FL Group, með það markmið að styrkja fjárhagsstöðu félagsins og veita því stöðugleika. Skráning félagsins af markaði er rökrétt skref í áframhaldandi endurskipulagningu félagsins. Við teljum að sem óskráð félag muni FL Group fá aukið svigrúm og fleiri tækifæri til að efla rekstur félagsins og kjarnafjárfestingar félagsins á banka-, trygginga- og fasteignamarkaði ásamt því að styðja við fjárfestingaverkefni í óskráðum félögum.“ Frekari upplýsingar veitir: Júlíus Þorfinnsson Forstöðumaður samskiptasviðs FL Group Sími: 591 4400 julius@flgroup.is Um FL Group: FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafélag með kjarnafjárfestingar í bönkum, trygginga- og fasteignafélögum auk fjölmargra fjárfestingaverkefna í óskráðum félögum. Meðal stærstu fjárfestinga FL Group eru 32% hlutur í Glitni banka, 99% hlutur í Tryggingamiðstöðinni og 39,8% hlutur í Landic Property. Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í Lundúnum. FL Group er skráð á OMX Nordic Exchange í Reykjavík (OMX: FL) og hluthafar félagsins eru rúmlega 4.300 talsins. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu FL Group, www.flgroup.is.