Uppgjör fyrsta ársfjórðungs


365 HF, UPPGJÖR FYRSTA ÁRSFJÓRÐUNGS 2008


Tekjur 1.ársfjórðungs jukust um 29% frá fyrra ári og námu 3.461 m.kr. 
Ebitda tímabilsins jókst um 35% frá fyrra ári og var 187 m.kr. 
Handbært fé frá rekstri jókst um 178 m.kr. frá áramótum og var 368 m.kr í lok
tímabilsins. 
Gengisfall íslensku krónunnar leiðir til 940 m.kr. gengistaps á fyrsta
ársfjórðungi 
Tap félagsins eftir skatta var 970 m.kr.


Helstu niðurstöður fyrsta ársfjórðungs:

Sala tímabilsins nam 3.461m.kr. og jókst um 780 m.kr. eða 29% frá sama tímabili
2007 

Innri vöxtur tekna (pro forma) var 9% frá fyrra ári*

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 187 m.kr. sem
er 35% aukning frá sama tímabili 2007 

EBITDA hlutfall fjölmiðla og afþreyingar nam 5,4% 

Nettó fjármagnsliðir námu 1.180 m.kr. en þar á meðal var gengistap upp á 940
m.kr. 

Handbært fé og markaðsverðbréf námu 368 m.kr. í lok tímabilsins

Eigið fé var 3.691 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 25%



	
Ari Edwald, forstjóri: “Viðunandi niðurstaða”
Rekstur samstæðunnar í heild er ekki langt frá rekstraráætlun þrátt fyrir
ákveðna erfiðleika í afþreyingarhlutanum.  Þar er fyrst og fremst um að ræða
lægð í sölu á erlendri tónlist og DVD myndum, en fyrirtækið vinnur að aukinni
dreifingu á þeim vörum. Rekstur fjölmiðla hefur gengið betur en áætlanir gerðu
ráð fyrir. Góður innri vöxtur er í tekjum og 35% hækkun EBITDA hagnaðar frá
fyrra ári. Fjármagnsliðir sem einkennast af miklu gengisfalli krónunnar, háum
vöxtum og verðbólgu, leiða til 970 m.kr. taps.  365 hf var með um 35% af
skuldum í erlendri mynt um áramót, og er gengistap félagsins 940 milljónir. 
365 hf ver ekki lán fyrir gjaldeyrissveiflum og áætlar ekki áhrif þeirra. 
Félagið er hins vegar að verulegu leyti varið út þetta ár að því er varðar
erlend aðföng til rekstrar.  Í heild telja stjórnendur 365 hf að niðurstaða
fyrsta ársfjórðungs sé viðunandi og gefi ekki tilefni til að breyta áætlunum
ársins. 

Árshlutareikningur 365 hf fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2008

Reikningsskilaaðferðir og samþykkt reikninga
Árshlutareikningur 365 hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) um árshlutareikningsskil (IAS 34) eins og þeir hafa
verið staðfestir af ESB.  Stjórn félagsins samþykkti árshlutareikninginn 6. maí
2008. 

Rekstrarreikningur
Rekstri 365 hf. er skipt upp í tvo starfsþætti, annars vegar fjölmiðla undir
merkjum 365 miðla ehf. og hins vegar afþreyingu sem félögin Sena ehf. og EFG
ehf. falla undir. 

Félagið í heild
Sölutekjur námu 3.461 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2008 og jukust um rúmlega 29%
frá fyrra ári. Pro forma söluaukning nam 9% 
Framlegð af rekstri 365 hf. nam 1.122 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2008 og var
framlegðarhlutfallið 32,4%.  Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta
(EBITDA) nam á fyrsta ársfjórðungi 187 m.kr. sem er 34% aukning frá fyrra ári
þegar EBITDA var 139 m.kr.  Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam
67 m.kr. en var 34 m.kr. á sama tíma í fyrra sem er 97% aukning milli ára. 
Hreinir fjármagnsliðir námu 1.180 m.kr. sem skýrist að stærstum hluta af
gengistapi upp á 940 m.kr. sem er mest megnis vegna erlendra lána félagsins.
Tap að upphæð 970 m.kr. var af rekstri 365 hf. á fyrsta ársfjórðungi 2008
samanborið við tap að upphæð 35 m.kr. á sama tíma í fyrra. 

Fjölmiðlar
Sölutekjur fjölmiðla námu 2.255 m.kr. og hækkuðu um 391 m.kr. frá fyrra ári eða
um 21% og má rekja hluta af þeirri hækkun til Stöðvar2Sport2 sem sýnir enska
boltann.  EBITDA fjölmiðla nam 185 m.kr. á fyrsta ársjórðungi 2008 og hækkaði
um 108 m.kr. eða sem svarar 140% aukningu milli ára. 

Afþreying
Tekjur á afþreyingarsviði námu 1.502 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2008 en námu
1.045 m.kr. í fyrra. Aukning á milli ára nemur því 43,7% sem skýrist að
stærstum hluta af innkomu erlenda hluta EFG seinni hluta árs 2007.  EBITDA
afþreyingarsviðs nam 40 m.kr. og lækkaði um 25 m.kr. á milli ára, sem að
stærstum hluta má rekja til mikils samdráttar í heildsölu á erlendri tónlist og
DVD sem stjórnendur telja að sé tímabundinn.  Stjórnendur EFG eru jafnframt að
ná utanum erlendar einingar í starfsemi sinni og er verkefnastaðan góð. 

Efnahagsreikningur
Heildareignir samkvæmt efnahagsreikningi 31. mars 2008 námu 14.722 m.kr. borið
saman við 14.683 m.kr. í árslok 2007.  Veltufjárhlutfall var 0,83 í lok mars
2008 en var 0,87 í lok árs 2007.  Eiginfjárhlutfall var 25% samanborið við 31%
í lok árs 2007. 

Vaxtaberandi skuldir í lok mars 2008  námu 8.190 m.kr. borið saman við 7.269
m.kr. þann 31. desember 2007, eða hækkun um 921 m.kr. sem skýrist af
gengisfalli íslensku krónunnar.  Nettó vaxtaberandi skuldir námu 7.822 m.kr. í
lok mars 2008 borið saman við 7.078 m.kr. í lok árs 2007. 

Sjóðstreymi
Handbært fé til rekstrar á tímabilinu án fjármagnsliða og skatta nam 549 m.kr.
en eftir greidda vexti og skatta 329 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi,
fjárfestingahreyfingar voru 90 m.kr. þ.a. fjárfestingar í varanlegum
rekstrarfjármunum 88 m.kr. og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 50 m.kr. 
Handbært fé í lok mars nam 368 m.kr. sem er hækkun upp á 178 m.kr. frá
ársbyrjun. 

Rekstrarhorfur 2008

Stjórnendur staðfesta áður útgefnar áætlanir um veltu á bilinu 13,5 - 14
milljarða króna og EBITDA á bilinu 1300 - 1400 m.kr.  Öllum ætti þó að vera
ljós sú óvissa sem nú ríkir varðandi kostnaðarþróun og efnahagsástand almennt. 

Kynningarfundur
Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 7.
maí, kl. 08.30 að Skaftahlíð 24 í norðurhúsi (skrifstofur) á 4.hæð.  Þar munu
Ari Edwald forstjóri og Lára N. Eggertsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu
félagsins og starfsemi þess. 

Nánari upplýsingar veita:
Ari Edwald forstjóri í síma 821 0365 og Lára Eggertsdóttir fjármálastjóri í
síma 696 9044

Attachments

365.int.financial.statements.q1.06.05.08.pdf 365.frettatilkynning.uppgjor.1f.2008.pdf