- Eigendur um 99% hlutafjár tóku afstöðu til kauptilboðsins - Eigendur um 84% hlutafjár verða áfram hluthafar í FL Group eftir afskráningu Reykjavík, 21. maí 2008: Kauptilboð FL Group til hluthafa félagsins um kaup á bréfum í FL Group gegn greiðslu með hlutabréfum í Glitni, í tengslum við fyrirhugaða afskráningu félagsins, rann út í dag, 21. maí kl.16. Eigendur um 99% hlutafjár félagsins tóku afstöðu til kauptilboðsins. Eigendur um 16% hlutafjár í FL Group, um 2.400 aðilar, samþykktu kauptilboðið og munu fá greitt með hlutabréfum í Glitni banka. Eigendur um 84% hlutafjár í FL Group, um 1.900 hluthafar, munu því eiga hluti sína áfram í félaginu eftir afskráningu þess. Kauptilboðið var lagt fram í kjölfar hluthafafundar FL Group þann 9. maí 2008 þar sem samþykkt var tillaga stjórnar félagsins um að óska eftir afskráningu félagsins með 99,86% greiddra atkvæða. Hluthafafundurinn samþykkti einnig einróma tillögu stjórnar um bjóða hluthöfum þann valkost að selja bréf sín í FL Group og fá greitt í hlutabréfum í Glitni. Kaupverð hluta í FL Group í tilboði til hluthafa var 6,68 á hlut sem var meðalgengi FL Group í aprílmánuði 2008 og gengi á hlutum í Glitni var 17,05 á hlut sem var lokagengi Glitnis þann 30. apríl 2008. Skiptihlutfallið í tilboði til hluthafa var því 0,3918 hlutir í Glitni banka fyrir hvern hlut í FL Group. Endanlegt uppgjör á viðskiptunum fer fram 29. maí 2008 og eru niðurstöðurnar settar fram með fyrirvara um óuppgerð viðskipti. FL Group hefur gert samkomulag við Jötunn Holding ehf. um rétt FL Group til kaupa á hlutum Jötuns í Glitni sem nota skal í viðskiptunum. Þessi viðskipti hafa því engin áhrif á 31,97% eignarhlut FL Group í Glitni eða stöðu Glitnis sem einni af kjarnafjárfestingum FL Group. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group: „Sú staðreynd að yfir tvö þúsund hluthafar FL Group samþykktu kauptilboð í hluti sína í félaginu staðfestir það mat stjórnar að margir af smærri hluthöfum félagsins gætu séð hagsmunum sínum betur borgið með því að eiga hlutabréf í Glitni sem skráðu félagi, fremur en FL Group sem óskráðu félagi. Þetta gefur einnig til kynna að tilboðið hafi þótt sanngjarnt. Í þessu samhengi er vert að halda því til haga að umrætt kauptilboð er alfarið umfram skyldu félagsins og sett fram í þeim tilgangi að vernda hagsmuni smærri hluthafa. Að sama skapi er ánægjulegt að eigendur 84% af hlutafé félagsins munu áfram eiga hluti sína í FL Group og sýna með því trú sína á félaginu og framtíð þess.” Frekari upplýsingar veitir: Júlíus Þorfinnsson Forstöðumaður samskiptasviðs FL Group Sími: 591 4400 julius@flgroup.is Um FL Group: FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafélag með kjarnafjárfestingar í bönkum, trygginga- og fasteignafélögum auk fjölmargra fjárfestingaverkefna í óskráðum félögum. Meðal stærstu fjárfestinga FL Group eru 32% hlutur í Glitni banka, 99% hlutur í Tryggingamiðstöðinni og 39,8% hlutur í Landic Property. Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í Lundúnum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu FL Group, www.flgroup.is.