Stjórn 365 hf. hefur samþykkt að boða til hluthafafundar þann 1. júlí næstkomandi og leggja fyrir hluthafa félagsins tillögu um skráningu félagsins úr Kauphöll OMX Nordic Exchange á Íslandi. Að fengnu samþykki hluthafafundar mun 365 hf. gera þeim hluthöfum sem þess óska tilboð um að kaupa hluti þeirra í 365 hf. Yfir 85% hluthafa hafa skuldbundið sig til að taka þátt í afskráningu með því að afsala sér rétti til tilboðsins og verða því áfram hluthafar í 365 hf. Að fengnu samþykki hluthafafundar þann 1. júlí mun öllum hluthöfum standa til boða að halda hlutum sínum í 365 hf. sem verður óskráð félag. Þeim hluthöfum sem þess óska verður boðið að selja hluti sína í 365 hf. og verður kaupverð hluta í tilboði til hluthafa 1.2 á hlut, sem er meðalgengi 30 daga til og með 16. júní, þegar ákvörðun stjórnar var tekin. Ari Edwald, forstjóri 365 hf. : „Þessi niðurstaða endurspeglar að stjórn félagsins telur það ekki þjóna hagsmunum félagsins og hluthafa þess, eins og aðstæður hafa þróast á markaði, að vera skráð í kauphöll. Á undanförnum misserum hefur tekist vel að bæta rekstur félagsins, sem byggir nú á færri einingum með sterka stöðu. Hins vegar eru blikur á lofti í rekstrarumhverfi fjölmiðlafyrirtækja eins og víðast í íslensku atvinnulífi, sem kann að gera skráningu óhentugri áfram. Tekjur af auglýsingum munu dragast saman, en þær eru helsta tekjulind fjölmiðla. Jafnframt er ljóst að niðurgreiðsla af skattfé til eins samkeppnisaðilans á auglýsingamarkaðnum, sem nemur meira en fjórðungi heildar auglýsingatekna allra dagblaða, útvarps- og sjónvarpsstöðva á Íslandi, felur í sér beina atlögu að rekstrargrundvelli allra einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja í landinu. Það eru alvarleg tíðindi fyrir öll þessi fyrirtæki að Samkeppniseftirlitið telur sig ekki hafa stöðu til að afstýra þessari samkeppnislegu mismunun. Má reikna með að fjölmiðlafyrirtæki verði undir mikilli pressu á næstu mánuðum, að leita allra leiða til að hagræða í rekstri sínum.“
365 hf. mun leggja fyrir hluthafafund tillögu um að sækja um skráningu úr kauphöll OMX
| Source: Íslensk afþreying hf.