- Hluthafafundur í SPRON 6. ágúst 2008


Hluthafafundur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON) verður haldinn
á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík, miðvikudaginn 6.
ágúst 2008, kl. 17.00. 


Dagskrá:

1. Tillaga stjórnar um samruna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON)
við Kaupþing banka hf., svohljóðandi: „Hluthafafundur í Sparisjóði Reykjavíkur
og nágrennis hf.,  haldinn 6. ágúst 2008, staðfestir samrunaáætlun stjórna
félagsins og Kaupþings banka hf. frá 1. júlí 2008 og þar með samruna félagsins
og Kaupþings banka hf. á grundvelli ákvæða hennar.“  Í tillögunni felst að
SPRON skuli slitið án skuldaskila og Kaupþing banki hf. yfirtaki eignir og
skuldir SPRON á grundvelli ákvæða XIV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög,
sbr. 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samruninn er bundinn þeim
skilyrðum að hluthafafundur í SPRON samþykki hann, að Fjármálaeftirlitið
samþykki hann og að samkeppnisyfirvöld ógildi hann ekki eða setji honum
skilyrði sem stjórnir félaganna telja óviðunandi eða leiði til þess að
óhjákvæmilegt sé að leggja ákvörðun um hann að nýju fyrir hluthafafund í SPRON.
Hið sameinaða félag skal taka við rekstri, eignum og skuldum, svo og réttindum
og skyldum SPRON þegar ofangreind skilyrði hafa verið uppfyllt. Við samrunann
fá hluthafar í SPRON 0,002007864 hluti í Kaupþingi banka hf. og 0,305585106
hluti í Exista hf. sem endurgjald fyrir hvern hlut að nafnverði ein króna í
SPRON. Að öðru leyti er vísað til samrunaáætlunar sem var samþykkt af stjórnum
félaganna 1. júlí 2008. 

2. Önnur mál löglega fram borin.

Fundargögn og atkvæðaseðlar verða afhentir hluthöfum eða umboðsmönnum á
fundarstað á fundardegi frá kl. 16.00. Við afhendingu atkvæðaseðla verður miðað
við hluthafaskrá kl. 9.00 að morgni fundardags. 

Hluthafar sem geta ekki mætt á fundinn geta greitt atkvæði rafrænt á slóðinni
www.spron.is/kosningar. Til þess að geta greitt atkvæði rafrænt þurfa hluthafar
að skrá sig fyrir kl. 16.00 þann 30. júlí 2008 og munu þeir þá fá afhentan
veflykil. Rafræn atkvæði þurfa að berast fyrir kl. 16.00 þann 31. júlí 2008.
Hluthafar geta skráð sig fyrir rafrænni kosningu í höfuðstöðvum SPRON að Ármúla
13a, 108 Reykjavík, með því að sýna fullgild persónuskilríki. Rafræn atkvæði
verða eingöngu tekin til greina ef sá sem greiðir atkvæði er skráður hluthafi í
hlutaskrá félagsins kl. 9.00 að morgni hluthafafundardags. Ef hluthafi sem
greitt hefur atkvæði rafrænt mætir jafnframt á fundinn, verður hið rafræna
atkvæði ekki talið með. 


Dagskrá fundarins liggur frammi til sýnis að Ármúla 13a í Reykjavík og eins má
nálgast hana á heimasíðu SPRON www.spron.is. 


Stjórn SPRON hf.

Nánari upplýsingar veitir; Soffía Sigurgeirsdóttir, Forstöðumaður
fjárfestatengsla SPRON, í síma 840-8242, eða ir@spron.is