Álitsgerð í tengslum við samrunaáætlun Kaupþings og SPRON


Stjórn SPRON hf. barst í dag álitsgerð frá MP Fjárfestingabanka hf. (MPB) vegna
endurgjalds til hluthafa SPRON vegna fyrirhugaðs samruna SPRON og Kaupþings. 

Stjórnir beggja félaga samþykktu að fá utanaðkomandi álit fjármálafyrirtækis á
því endurgjaldi sem kemur fyrir hlutafé í SPRON við samrunann. 

Við mat á því endurgjaldi sem kemur fyrir hlutafé SPRON við samrunann hefur MPB
litið til verðmætis SPRON, m.a. út frá verðmyndun á OMX Nordic Exchange Iceland
hf. (OMX ICE) og upplýsingum sem fyrir liggja um SPRON sem og upplýsingum sem
stjórnendur SPRON hafa afhent. 
Jafnframt voru kennitölur sambærilegra fyrirtækja skoðaðar. Að gefnum þeim
forsendum sem að framan greinir, er það mat MPB að endurgjald til hluthafa
SPRON, sem jafngildir 3,83 krónum á hvern hlut í  SPRON sé sanngjarnt.
Jafnframt vekur MPB athylgi þá því  að þar sem um greiðslu er að ræða í
hlutabréfum hafa breytingar á verði hlutabréfa Kaupþings og Exista bein áhrif á
endanlegt endurgjald sem kemur fyrir hlutabréf SPRON. 

Endurgjald til hluthafa
Við samrunann fá hluthafar í SPRON 0,002007864 hluti í Kaupþingi og 0,305585106
hluti í Exista sem endurgjald fyrir hvern hlut að nafnverði ein króna í SPRON.
Ekki verður greitt fyrir eigin hluti SPRON. Hluthöfum SPRON mun standa til boða
að skipta umræddum hlutum innbyrðis fyrir milligöngu Kaupþings án þóknunar í
tvær vikur eftir uppgjör kaupverðsins, á markaðsverði á þeim tíma. Verðlagning
svarar til skráðs lokagengis á hlutum í  Kaupþingi og Exista þann 30. júní
2008. Endurgjald til hluthafa SPRON jafngildir því að gengi hlutabréfa SPRON sé
3,83 fyrir hvern hlut í SPRON eða 763 krónur fyrir hvern hlut í Kaupþingi og
7,52 krónur, fyrir hvern hlut í Exista.. 

Skilyrði samrunans
Samruni SPRON og Kaupþings er háður samþykki hluthafafundar SPRON og
Fjármála-eftirlitsins. Þá er samruninn einnig háður því að samkeppnisyfirvöld
ógildi hann ekki eða setji honum skilyrði sem stjórnir félaganna telja
óviðunandi eða leiði til þess að óhjákvæmilegt sé að leggja ákvörðun um
samrunann að nýju fyrir hluthafafund í SPRON. Samþykkis lánveitenda vegna
samrunans hefur þegar verið aflað. 

Álitsgerðin er hér meðfylgjandi einnig má nálgast hana á heimasíðu SPRON
www.spron.is. 

Nánari upplýsingar veitir:	
Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON,  í síma 550-1213