Samkvæmt árshlutareikningi Frjálsa fjárfestingarbankans hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 nam hagnaður samstæðu bankans 146 millj. kr. eftir skatta samanborið við 1.035 millj. kr. fyrir sama tímabil 2007. Arðsemi eigin fjár var 5,1%. Hagnaður móðurfélags, Frjálsi fjárfestingarbankinn, nam 280 millj. kr. eftir skatta á tímabilinu meðan 134 millj. kr. tap var á rekstri dóttufélags bankans. Tap dótturfélags skýrist einkum af auknum vaxtagjöldum vegna hás vaxtastigs og vegna veikingu íslenskru krónunnar gagnvart erlendum myntum. Meginverkefni dótturfélags Frjálsa fjárfestingarbankans eru fjárfesting og útleiga fasteigna. Hreinar vaxtatekjur samstæðu námu 188 millj. kr. samanborið við 323 millj. kr. fyrir sama tímabil 2007. Vaxtamunur var 0,5% samanborið við 1,1% árið 2007. Þjónustutekjur samstæðu námu 57 millj. kr samanborið við 62 millj. kr. fyrir sama tímabil 2007 og aðrar rekstrartekjur lækka um 76% og námu 275 millj. kr. samanborið við 1.158 millj. kr. 2007 Kostnaðarhlutfall samstæðu var 51% en var 15% árið 2007. Launakostnaður hækkar um 9% frá sama tímabili 2007 og var 141 millj. kr. og annar rekstrarkostnaður hækkar um 19% og var 109 millj. kr. Niðurstaða efnahagsreiknings samstæðu var 79.730 millj. kr. og hefur hækkað um 13% frá áramótum. Heildarútlán og kröfur á lánastofnanir námu 75.935 millj. kr. í lok júní 2008 og hækkuðu um 19% frá áramótum. Virðisrýrnun útlána nam 238 millj. kr. samanborið við 53 millj. kr. framlag á sama tímabili 2007. Vanskilahlutfall er lágt og nam 0,44% af heildarútlánum í lok júní 2008. Afskriftareikningur útlána í lok júní 2008 nam 593 millj. kr. sem er 0,8% hlutfall af heildarútlánum. Eigið fé samstæðu í lok tímabilsins nam 5.968 millj. kr. og hefur hækkað um 2,5% frá áramótum. Eiginfjárhlutfall (CAD) samstæðu 30.6.2008 var 10,7%. Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Frjálsa. “Ákveðin vonbrigði urðu með afkomu fyrstu sex mánuði ársins 2008. Árið fór vel af stað og afkoma fyrsta ársfjórðungs var góð og gaf fyrirheit um góða afkomu ársins. Óhagstæð kjör á vaxta- og gjaldmiðlasamningum á öðrum ársfjórðungi varð til þess að hreinar vaxtatekjur bankans lækkuðu mikið, en bankinn þarf að umbreyta á hverjum tíma umtalsverðri upphæð erlendrar mynteignar yfir í íslenskar krónur. Vanskil viðskiptavina eru lítil en merkja má á síðustu mánuðum aukna greiðsluerfiðleika hjá viðskiptavinum. Til að gæta fyllstu varúðar vegna hugsanlegra útlánatapa var framlag í afskriftareikning útlána rúmlega þrefaldað á tímabilinu í samanburði við framlag sama tímabils árið 2007. Af útlánasafni bankans eru um 15% nýbyggingalán tryggð með veð í húsnæði í byggingu eða með veð í nýjum fullbúnum íbúðum. 84% útlána eru tryggð með veð í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði og 1% útlána eru tryggð með veð í bifreiðum. Þrátt fyrir veikingu krónu, verðbólguskot og lækkun húsnæðisverðs er ekki fyrirséð að bankinn verði fyrir neinum stórum útlánatöpum á næstu 12 mánuðum. Afkoma bankans ætti að verða viðundandi á árinu 2008 en markmið ársins er 15% arðsemi eigin fjár.” Nánari upplýsingar veitir; Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri í síma 540 5000
Frjálsi fjárfestingabankinn hf. Afkoma fyrri hluta árs 2008
| Source: SPRON