Afkoma HB Granda hf. á fyrri árshelmingi 2008 • Rekstrartekjur fyrri árshelmings voru 6.917 mkr, en voru 7.696 mkr árið áður • EBITDA var 1.381 mkr (20%), en var 2.539 mkr á sama tíma árið áður, þar af 609 mkr vegna hagnaðar af sölu skipa • Nettó gengismunur og verðbætur lána voru neikvæð um 4.546 mkr, en jákvæð um 1.965 mkr árið áður • Tap tímabilsins var 3.198 mkr, en árið áður varð 2.933 mkr hagnaður Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2008 Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2008 námu 6.917 mkr, samanborið við 7.696 mkr á sama tímabili í fyrra. Lægri tekjur skýrast einkum af mun minni afla. Þannig minnkaði veiði þorsks um 42% og loðnu um 47% vegna minnkaðra aflaheimilda, sem og ýsu um 31% vegna minni þorskveiði. Þá minnkaði veiði á úthafskarfa um 45% og kolmunna um 42%, en minna var sótt í þessar tegundir vegna slakra aflabragða og hás olíuverðs. Á móti kom hækkun tekna vegna veikingar íslensku krónunnar, en meðalgengisvísitalan hækkaði úr 119 í 142 á milli ára eða um 19%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.381 mkr eða 20% af rekstrartekjum, en var 2.539 mkr árið áður, þar af 609 mkr vegna hagnaðar af sölu skipa (25% án söluhagnaðar). Lægra EBITDA hlutfall réðst m.a. af hlutfallslega minni veiði verðmætra tegunda, s.s þorsks, og háu olíuverði. Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi var 858 mkr, en var 1.956 mkr á sama tímabili árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 4.992 mkr, en jákvæð um 1.684 mkr árið áður. Þar af voru gengistap og verðbætur lána 4.546 mkr á fyrri árshelmingi 2008, en gengishagnaður umfram verðbætur var 1.965 mkr árið áður. Vísitala gengisskráningar hækkaði úr 120,0 þann 31.12.2007 í 160,4 þann 30.6.2008, eða um 33,7%. Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 63 mkr, en neikvæð um 17 mkr árið áður. Tap fyrir tekjuskatt var 4.196 mkr á móti 3.623 mkr hagnaði á fyrstu sex mánuðum fyrra árs. Tap HB Granda hf. á fyrri árshelmingi ársins 2008 nam 3.198 mkr, en árið áður var hagnaður félagsins 2.933 mkr. Efnahagur Heildareignir félagsins námu 28.852 mkr í lok júní 2008, en 27.548 mkr í lok árs 2007. Þar af voru fastafjármunir 23.715 mkr og veltufjármunir 5.137 mkr. Í lok júní nam eigið fé 6.528 mkr. Eiginfjárhlutfall var 23%, en var 35% í lok árs 2007. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 22.325 mkr. Skipastóll og afli Skipastóll HB Granda hf. samanstendur af 5 frystitogurum, 3 ísfisktogurum og 4 uppsjávarskipum. Fyrstu sex mánuði ársins var botnfiskafli skipa félagsins um 25 þúsund tonn og uppsjávarafli um 58 þúsund tonn. Rekstur á seinni árshelmingi Það sem af er seinni árshelmingi 2008 hafa uppsjávarskip HB Granda veitt rúmlega 33 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld og makríl og er aflaverðmætið rétt innan við einn milljarð króna, sem er heldur meira en heildaraflaverðmæti skipanna á fyrri árshelmingi. Aflinn hefur allur farið í bræðslu, mest í verksmiðju félagsins á Vopnafirði. Togarar félagsins hafa einnig aflað vel, einkum af ufsa.