Stofnfjáreigendur Byrs samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á fjölmennum fundi á Hótel Nordica 27. ágúst 2008 að veita stjórn Byrs heimild til að breyta rekstrarformi sparisjóðsins úr sjálfseignarstofnun (stofnfjársjóði) í hlutafélag í samræmi við VIII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Aðdragandi málsins er sá, að á aðalfundi Byrs sem fram fór þann 9. apríl sl., var samþykkt að kannaðar yrðu mögulegar breytingar á rekstrarformi Byrs í hlutafélag. Stjórn Byrs setti í framhaldi af því á fót vinnuhóp, sem var falið að taka út helstu kosti og galla þess, en hann skipuðu Gunnar Árnason, starfsmaður Byrs, Sigurður Jónsson, lögg. endurskoðandi og Jón Kr. Sólnes, hrl. og formaður hópsins. Í skýrslu vinnuhópsins til stjórnar Byrs, var komist að þeirri niðurstöðu að fleiri rök mæli með hlutafjárvæðingu, en gegn. Er m.a. á það bent að auk þess sem hlutafélög séu mun algengara rekstrarform um heim allan en það sem sparisjóðir byggja á, lúti þau almennt gagnsæjum og auðskildum stjórnvaldsreglum. Viðskipti með hlutafé séu m.a. af þessum sökum hagfelldari en með stofnfé og almennt séð standi hlutafélögum fjármögnun á hagstæðari kjörum til boða en sparisjóðum. Lögum samkvæmt breytist rekstrarform sparisjóðs með samruna hans og hlutafélags, sem er stofnað í þeim tilgangi að yfirtaka rekstur sjóðsins. Síðasti liður ferlisins felst svo í samþykki Fjármálaeftirlitsins á ákvörðun stofnfjáreigenda um breytt rekstrarform og mun stjórn Byrs fara þess á leit við FME á næstunni. Nánari upplýsingar veita Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri og Magnús Ægir Magnússon, sparisjóðsstjóri í síma 575 4000.
- Byr sparisjóður verður hf. - Stofnfjáreigendur samþykkja breytt rekstarform
| Source: Byr sparisjóður