-Tekjur aukast um 48,3% milli ára -Góður árangur í flutningastarfsemi -Hár fjármagnskostnaður hefur mikil áhrif á afkomu -Formlegt söluferli hafið á Versacold Atlas Helstu atriði úr uppgjörinu: Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 403,2 milljónum evra (3F 2007: 271,9 milljónir evra), sem er 48,3% tekjuaukning á milli ára. Undirliggjandi vöxtur samstæðunnar er 4,3% á fjórðungnum. Góður árangur náðist í flutningastarfsemi félagsins en auk þess var rekstur Versacold Atlas í samræmi við áætlun. Starfsemi Eimskips skiptist í tvær meginstoðir; flutningastarfsemi (sjóflutningar og tengdir flutningar) og hinsvegar rekstur kæli- og frystigeymslna. Helstu atriði úr uppgjöri þriðja ársfjórðungs eru eftirfarandi: • Rekstrartekjur af flutningastarfsemi námu 160,5 milljónum evra á 3F og tekjur af rekstri kæli- og frystigeymslna voru 242,7 milljónir evra á fjórðungnum. • Rekstrargjöld námu 391,4 milljónum evra (3F 2007: 260,7 milljónir evra) og jukust því um 50,1% frá fyrra ári. • Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 41,1 milljónum evra, eða 10,2% í hlutfalli af tekjum. EBITDA jókst um 52.2% frá fyrra ári þar sem hún var 27.0 milljónir evra, eða 9,9% framlegð. • Heildarfjármagnskostnaður er 33,2 milljónir evra á 3F, þar af nemur gengistap um 3,1 milljónum evra. • Tap eftir skatta var 19,9 milljón evra á 3F samanborið við 14,1 milljóna evra hagnað á 3F 2007. • Samkomulag var gert við tvo af fyrrum eigendum Innovate um skil á hlutabréfum og um 55 milljónir hluta komust í eigu Eimskips. • Formlegt söluferli á Versacold Atlas er hafið undir stjórn kanadískra banka. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, um uppgjörið: „Flutningastarfsemi Eimskips skilar áfram viðunandi árangri og er í samræmi við okkar áætlanir. Fjármagnsliðir halda hinsvegar áfram að hafa umtalsverð áhrif á afkomu félagsins en yfirlýst markmið okkar er að lækka skuldir samstæðunnar. Auk þess er unnið að ýmsum hagræðingarverkefnum innan félagsins til að bregðast við ytri aðstæðum þar sem búast má við samdrætti í flutningastarfsemi. Lykiláhersla verður lögð á endurskipulagningu félagsins og markmið okkar er að eiginfjárhlutfall félagsins verði 25% og í því samhengi er formlegt söluferli hafið á Versacold Atlas í samstarfi við kanadíska banka.“