Landsbanki selur fjárfestingarbankastarfsemi sína í Evrópu fyrir 380 milljón evrur


Landsbankinn undirritaði þann 30. september, samkomulag við
Straum-Burðarás fjárfestingarbanka um kaup þess síðarnefnda á
fyrirtækjum Landsbankans á sviði fjárfestingarbankaþjónustu og
verðbréfamiðlunar í Evrópu. Kaupin, sem hljóða upp á 380 milljónir
evra (um 55,4 milljarða króna), mynda hvorki verulegan söluhagnað né
tap. Landsbankinn selur eftirgreind fyrirtæki: Landsbanki Securities
(UK) Ltd í Bretlandi, Landsbanki Kepler S.A. á meginlandi Evrópu og
84% hlut bankans í Merrion Landsbanki Ltd á Írlandi. Samkomulagið er
háð samþykki eftirlitsaðila í viðkomandi löndum þar sem fyrirtækin
eru starfrækt.

Viðskiptin styrkja eiginfjárhlutfall Landsbankans (Tier 1) þar sem
380 milljónir evra (um 55,4 milljarðar króna) eigin fjár voru bundin
í rekstri dótturfélaganna. Viðskiptin gera Landsbankanum kleift að
styrkja starfsemi sína utan Íslands, hagræða í rekstri og ná fram
bættri kostnaðarhagkvæmni.

Viðskiptin gera báðum fyrirtækjum kleift að nýta helstu styrkleika
sína og innviði og halda jafnframt áfram að efla núverandi
viðskiptasambönd og stofna til nýrra.

Í kjölfar þessara viðskipta mun Landsbankinn styrkja fyrirtækja- og
viðskiptabankastarfsemi sína í útibúum og dótturfyrirtækjum. Sjónum
verður áfram beint að því að auka fjölbreytni í bankastarfsemi
erlendis á sviði eignatryggðra lána, sértækum útlánum og
innlánastarfsemi ásamt tengdum fjármálaafurðum sem skapa fjölþættar
og stöðugar rekstrartekjur.

Í kynningu á hálfsársuppgjöri Landsbankans kom fram að helsta markmið
í rekstri hans í núverandi árferði væri að halda áfram að styrkja
grunntekjumyndun bankans og undirstöður í rekstri hans. Þessi
viðskipti eru mikilvægur áfangi á leið að því marki.


Frekari upplýsingar veita bankastjórar Landsbankans, Sigurjón Þ.
Árnason og Halldór J. Kristjánsson í s. 410 4009.