Útboð á hlutum í Sampo Stjórn Exista hf. ákvað á fundi sínum í gærkvöldi, 6. október, að fela Citigroup Global Markets Limited („Citigroup“) og Morgan Stanley & Co. International plc. („Morgan Stanley“ ) umsjón með flýtiútboði með áskriftarfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuilt offering) á 114.257.867 hlutum Exista í Sampo Oyj í Finnlandi, eða sem nemur 19,98% af heildarhlutafé Sampo. Citigoup og Morgan Stanley fara sameiginlega með umsjón útboðsins. Tekið er við áskriftum fyrir hlutum nú þegar. Stefnt er að því að tilkynna um verð og úthlutun eins fljótt og unnt er að áskriftum loknum en umsjónaraðilar munu taka ákvörðun um hvenær lokað verður fyrir ákriftir. Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista: „Í ljósi viðvarandi samdráttar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er skynsamlegt að minnka eignarstöður og draga úr skuldsetningu. Við höfum því ákveðið að bjóða hlut okkar í Sampo til sölu með áskriftarfyrirkomulagi og draga þannig verulega úr skuldbindingum Exista. Ekki eru fyrirhugaðar sölur á öðrum eignum.“ Nánari upplýsingar veitir: Samskiptasvið Exista Sigurður Nordal Framkvæmdarstjóri sími: 550 8620 ir@exista.com