Hluthafafundur Exista hf. var haldinn í dag 30. október 2008. Fyrir fundinn voru lagðar eftirfarandi tillögur, sem allar voru samþykktar: 1. EFTIRFARANDI TILLAGA UM BREYTINGU Á 2. MGR. 4. GR. SAMÞYKKTA FÉLAGSINS UM HEIMILD STJÓRNAR TIL HÆKKUNAR HLUTAFJÁR VAR SAMÞYKKT: Stjórn félagsins er heimilt að auka hlutafé þess um allt að 50.000.000.000 króna að nafnverði eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í evrum, með áskrift allt að 50.000.000.000 nýrra hluta. Hlutahafar falla frá forgangsrétti sínum skv. 34. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og samkvæmt samþykktum þessum. Stjórn félagsins er þó heimilt að veita einstökum hluthöfum á hverjum tíma heimild til að skrá sig fyrir nýjum hlutum að hluta eða öllu leyti. Engar hömlur eru á viðskiptum með hina nýju hluti. Nýir hlutir skulu vera í sama flokki og með sömu réttindi og aðrir hlutir í félaginu. Þeir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Stjórn félagsins er falið að ákveða nánari útfærslu á hækkun þessari m.t.t. verðs og greiðsluskilmála. Stjórn félagsins er heimilt að ákveða að áskrifendur greiði fyrir hina nýju hluti að hluta eða öllu leyti með öðru en reiðufé. Heimild þessi gildir til 30. október 2013 að svo miklu leyti sem hún hefur ekki verið nýtt fyrir það tímamark. 2. EFTIRFARANDI TILLAGA UM BREYTINGU Á 3. MGR. 4. GR. SAMÞYKKTA FÉLAGSINS UM HEIMILD STJÓRNAR FYRIR HÖND FÉLAGSINS AÐ UNDIRGANGAST FJÁRSKULDBINDINGAR SEM BREYTA MÁ Í HLUTAFÉ Í FÉLAGINU OG HEIMILD TIL HÆKKUNAR HLUTAFJÁR Í SAMRÆMI VIÐ ÞAÐ VAR SAMÞYKKT: Stjórn félagsins er heimilt að taka lán fyrir hönd félagsins eða að gangast undir annars konar fjárhagslega skuldbindingu allt að samanlagðri fjárhæð kr. 7.087.383.816, sem breyta má í hluti í félaginu, en að því gefnu að heildarfjöldi hluta í félaginu sem mögulegt er að gefa út við nýtingu breytiréttar að fullu, skuli ekki nema meira en 50% af útgefnu hlutafé félagsins á útgáfudegi slíkra lána eða fjárhagslegra skuldbindinga. Stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé félagsins um samsvarandi fjárhæð og breytiréttur nemur, þrátt fyrir heimild samkvæmt 2. mgr. 4. gr., og mun frekar ákveða hvernig heimild þessari verður beitt í samræmi við ákvæði 3., 4., og 5. mgr. 48. gr. og 41. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Hluthafar afsala sér forgangsrétti til áskriftar á hlutum sem gefnir kunna að verða út vegna þessa ákvæðis. Stjórn félagsins er heimilt að kveða á um að unnt sé að greiða lán eða fjárhagslega skuldbindingu með öðrum verðmætum en reiðufé. Heimild þessi gildir til 30. október 2013 að svo miklu leyti sem hún hefur ekki verið nýtt fyrir það tímamark. 3. EFTIRFARANDI TILLAGA UM BREYTINGU Á 1. MGR. 7. GR. SAMÞYKKTA FÉLAGSINS UM HEIMILD STJÓRNAR TIL KAUPA Á EIGIN BRÉFUM VAR SAMÞYKKT: Félagið má eigi veita lán út á hluti sína nema lög leyfi. Félagsstjórn skal heimilt á næstu 18 mánuðum frá 30. október 2008 að telja að kaupa allt að 10% af eigin hlutum. Kaupverð hlutanna skal ekki vera lægra en 0,01 kr á hlut og ekki hærra en 40 kr. á hlut. Ekki eru sett lágmörk á heimild þessa varðandi stærð hluta sem keyptir eru hverju sinni. 4. EFTIRFARANDI TILLAGA UM AFSKRÁNINGU HLUTA FÉLAGSINS ÚR KAUPHÖLL NASDAQ OMX NORDIC EXCHANGE Á ÍSLANDI VAR SAMÞYKKT: Hluthafafundur Exista hf. haldinn 30. október 2008 samþykkir að hlutir í félaginu verði tafarlaust afskráðir úr kauphöll NASDAQ OMX Nordic Exchange á Íslandi. Hluthafafundur beinir því til stjórnar og veitir heimild til þess að annast slíka afskráningu. 5. EFTIRFARANDI TILLAGA UM HEIMILD STJÓRNAR TIL ÓTAKMARKAÐRAR SÖLU Á EIGNUM FÉLAGSINS VAR SAMÞYKKT: Hluthafafundur Exista hf. haldinn 30. október 2008 samþykkir, vegna verulegra efnahagslegra erfiðleika í þjóðfélaginu, að veita stjórn félagsins ótakmarkaða heimild til þess að selja eða ráðstafa allt að öllum eignum félagsins, með einni eða fleiri ráðstöfunum, hvort sem um er að ræða lausafé eða aðrar eignir félagsins svo sem fasteignir, hlutabréf, og aðrar eignir, að því gefnu að slíkar ráðstafanir séu að vandlegu mati hagstæðar og hagfelldastar félaginu. Heimild þessi gildir til 30 október 2009. Frekari upplýsingar veitir: Samskiptasvið Exista Sigurður Nordal Framkvæmdastjóri Sími: 560 8620 ir@exista.com