Stjórn Exista hefur óskað eftir því við Nasdaq OMX Nordic Exchange á Íslandi (kauphöllin) að hlutabréf félagsins verði tekin úr viðskiptum úr kauphöllinni. Beiðnin er í samræmi við niðurstöðu hluthafafundar Exista 30. október 2008, þar sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að óska tafarlausrar afskráningar hlutabréfa félagsins úr kauphöllinni. Í greinargerð félagsins til Kauphallarinnar eru einkum þrjár ástæður tilgreindar til grundvallar ákvörðuninni: 1. Óvissa ríkir um þessar mundir um stöðu og framtíð Exista. Stjórnendur Exista eru í viðræðum við fjármálastofnanir og stjórnvöld til þess að fá skýrari mynd um innlausn þeirra krafna sem félagið á gagnvart íslenskum bönkum. Auk þess er félagið í viðræðum við innlenda og erlenda lánveitendur um endurskoðun á lánum og öðrum skuldbindingum félagsins. Óvissa af þessum toga hindrar eðlilega verðmyndun í félaginu og kann að leiða til mismunar á milli fjárfesta. 2. Það er mat stjórnar Exista, með hagsmuni félagsins og allra hluthafa þess að leiðarljósi, að mjög mikilvægt sé að félagið geti brugðist skjótt við og tekið allar nauðsynlegar ákvarðanir fyrir félagið eins fljótt og mögulegt er, án tillits til þeirra upplýsinga- og tilkynningarskyldu sem fylgir skráðum félögum. 3. Einstakar aðstæður ríkja nú á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar hruns fjármálakerfisins og er að mati Exista ekki hægt að treysta á eðlilegt jafnvægi framboðs og eftirspurnar á opnum markaði. Þegar við bætist óvissa um félagið sjálft, þá eru verulegar líkur á því að það geti beinlínis skaðað hagsmuni allra hluthafa Exista að opna fyrir viðskipti með félagið á skráðum markaði.
Exista óskar eftir að hlutabréf félagsins verði tekin úr viðskiptum úr kauphöll
| Source: Exista hf.