365 hf. verður Íslensk afþreying hf.


Á hluthafafundi 365 hf. sem haldinn var í dag var samþykkt samhljóða að breyta
nafni félagsins í Íslensk afþreying hf. 

Íslensk afþreying er hlutafélag tveggja eininga, Senu ehf. og EFG ehf. og
starfar félagið einkum á vettvangi afþreyingar og skyldrar starfsemi. Gert er
ráð fyrir að velta félaganna á þessu ári sé samtals um sex milljarðar króna. 

Einnig var á fundinum samþykkt samhljóða að veita stjórn heimild til hækkunar á
hlutafé að andvirði þriggja milljarða króna að nafnvirði með útgáfu nýrra
hluta. 

Á fundinum var einnig samþykkt samhljóða að fækka stjórnarmönnum félagsins úr
fimm aðalmönnum í þrjá. Á fundinum voru sjálfkjörin í stjórn Ari Edwald, sem
mun gegna stjórnarformennsku, Einar Þór Sverrisson og Lára N. Eggertsdóttir og
Hildur Sverrisdóttir sem varamaður. 

Björn Sigurðsson verður forstjóri Íslenskrar afþreyingar hf.  




Nánari upplýsingar veita Ari Edwald og Hildur Sverrisdóttir í s. 512-5511