ENDURÚTGEFIÐ: Greinargerð um áhrif breytinga á fjármálamörkuðum á útgefanda


Endurútgefið frá 21.11.2008

Áhrif óvenjulegs ástands á fjármálamörkuðum á rekstur Hf. Eimskipafélag Íslands 
Að beiðni Fjármálaeftirlitsins til útgefenda skráðra hlutabréfa á Íslandi þá
birtir Eimskip eftirfarandi greinagerð um áhrif óvenjulegs ástands á
fjármálamörkðum á rekstur félagsins. 

Starfsemi Eimskip er fjölþjóðleg. Ekki hefur orðið nein veruleg röskun á
starfsemi félagsins utan Íslands en ljóst er að ástandið á fjármálamarkaði
hérlendis hefur veruleg áhrif á rekstur Eimskip innanlands og innflutning til
landsins. 

Í kjölfar hruns bankakerfisins varð veruleg röskun á viðskiptum íslenskra
fyrirtækja við útlönd sem hefur haft áhrif á innflutning til Íslands.  Mikill
samdráttur hefur verið í innflutningi síðustu vikur en félagið hafði þegar
brugðist við samdrætti fyrr í haust með breytingum á siglingaleiðakerfum.  Nú
um miðjan nóvember voru gerðar enn frekari breytingar með því að fækka skipum
niður í eitt á Ameríkuleið ásamt því að framkvæma ýmsar aðrar
hagræðingaraðgerðir í rekstri.  Útflutningur frá Íslandi hefur hins vegar
aukist samanborið við fyrra ár. 

Mikil óvissa ríkir um stöðu margra fyrirtækja á Íslandi um þessar mundir sem
getur haft bein eða óbein áhrif á rekstur Eimskip.  Um 25% af starfsemi
félagsins tengist Íslandi og því hefur samdráttur í flutningum til Íslands
minni hlutfallsleg áhrif á heildarafkomu félagsins en ætla mætti. 

Eins og kunnugt er vinnur Eimskip nú að fjárhagslegri endurskipulagningu og
stefnir að sölu á einingum sem tengjast frystigeymslustarfsemi félagsins. 
Söluferlið gengur samkvæmt settum markmiðum og óvissa á fjármálamörkuðum hefur
ekki haft bein áhrif á ferlið að svo stöddu.  Félagið hefur fengið mikilvægan
stuðning frá skuldabréfaeigendum við að tryggja söluferlið, með því að fresta
vaxtagreiðslum, eins og fram kom í tilkynningu til Kauphallar þann 23. október
síðastliðinn.  Félagið vinnur ennfremur að því að ná  samkomulagi við aðra
kröfuhafa um að fresta vaxtagreiðslum til að tryggja rekstur samstæðunnar og
söluferli eigna.  Félagið mun upplýsa um framgang þeirrar vinnu eftir því sem
henni vindur fram. 

Möguleg óvissa um mat á eignum og skuldum félagsins snýr helst að þeim
afleiðusamningum sem félagið gerði við Íslenskar lánastofnanir til að verja
gengistengda fjármögnun sína og ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig farið
verður með.  Einnig ríkir áfram óvissa um svokallaða XL kröfu sem félagið
tilkynnti sérstaklega um þann 7. október síðastliðinn.  Unnið er að úrlausn
þessara mála. 

Áhrif gengislækkunar  íslensku krónunnar hefur hingað til haft óveruleg áhrif á
rekstur félagsins enda tiltölulega lítill hluti samstæðunnar háður íslenskum
krónum.  Gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur hafa hins vegar truflað
greiðsluferli félagsins að einhverju leyti án þess þó að hafa haft nein áhrif á
þjónustu félagsins enn sem komið er. 

Mjög erfitt er að meta framtíðarhorfur félagsins að svo stöddu í ljósi óvissu
um þróun mála á fjármálamörkuðum.  Félagið starfar á mörgum mörkuðum sem hingað
til hafa þróast misjafnlega og því erfitt að segja nákvæmlega til um
framtíðarhorfur félagsins í heild.  Endurreisn bankakerfisins er mikilvæg fyrir
starfsemi félagsins á Íslandi og að almenn viðskipti við útlönd komist í betra
lag.  Unnið er markvisst að fjárhagslegri endurskipulagningu til að tryggja
áframhaldandi rekstur félagsins. 

Nánari upplýsingar veitir
Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips