Fjármálaeftirlitið sektar Hf. Eimskipafélag Íslands um 20 milljónir kr. vegna brots á upplýsingaskyldu


Fjármálaeftirlitið hefur gert Hf. Eimskipafélagi Íslands að greiða
stjórnvaldssekt að fjárhæð 20 milljónir króna. Sektina fær félagið vegna
frestunar á birtingu innherjaupplýsinga vegna fjárhagserfiðleika Innovate
Holdings Ltd, dótturfélags Eimskips í Bretlandi síðastliðið vor. 

Eimskip keypti 55% hlut í Innovate í Bretlandi árið 2006 og eignaðist síðar
allt félagið árið 2007. Í febrúar sl. voru málefni Innovate til umræða á
stjórnarfundi og kom þá fram að áætlanir vegna Innovate voru ekki að ganga
eftir. Álitið var að um tímabundnar þrengingar væri að ræða og ákvað stjórnin
að styðja við Innovate líkt og oft er gert þegar félög eru talin ganga í gegnum
tímabundna erfiðleika. Að mati félagsins voru á þessum tíma ekki til staðar
skýrar upplýsingar hjá Eimskip um að fjárhagsstaða Innovate væri jafn slæm og
síðar kom í ljós, þar er að afskrifa þyrfti Innovate í heild sinni úr bókum
Eimskips. Hefði það verið skoðun fyrrum stjórnenda og stjórnar félagsins að
fjárhagsstaða Innovate væri jafn slæm og síðar kom í ljós hefði stjórnin eðli
málsins samkvæmt ekki tekið þá ákvörðun um að styðja við Innoavate með
verulegum fjárframlögum fram í maí. Þannig kom mat félagsins á fjárhagsstöðu
Innovate beinlínis fram í aðgerðum þess. Þann 20. febrúar síðastliðinn hætti
þáverandi forstjóri félagsins og aðstoðarforstjóri tók við starfinu tímabundið
þar til núverandi forstjóri var ráðinn í maí sl. til félagsins. Á aðalfundi
félagsins 18. mars síðastliðinn var ný stjórn félagsins kosin og tóku þrír nýir
stjórnarmenn sæti í stjórninni. 

Á fundi í byrjun maí síðastliðinn var kynnt mun alvarlegri staða hjá Innovate
en áður var talið og tók stjórn félagsins þá í kjölfarið ákvörðun um að hætta
fjárstuðningi við Innovate. Ákvörðunin var tekin á þeim grundvelli að staða
Innovate væri mun alvarlegri en fyrrum stjórnendur og stjórn töldu.  Þá tók
stjórn félagsins ákvörðun um að fresta birtingu upplýsinga um rekstrarvanda
Innovate til að vernda lögmæta hagsmuni Innovate, Eimskips, hluthafa,
kröfuhafa, starfsmanna og viðskiptavina Innovate. Var unnið eftir enskum lögum
og samkvæmt ráðgjöf þarlendra ráðgjafa og lögmanna. Strax í kjölfarið var unnið
að því með breskum ráðgjöfum að koma eignum Innovate í söluferli og áhersla
lögð á að fá sem mest verðmæti fyrir eignir Innovate til að takmarka tjón vegna
gjaldþrots Innovate, fyrir Eimxskip og kröfuhafa Innovate. Hefðu upplýsingar um
yfirvofandi gjaldþrot Innovate verið birt á þeirri stundu telur stjórn Eimskips
ljóst að veruleg verðmæti hefðu tapast, þar sem viðskiptavinir og starfsmenn
Innovate hefðu líklega yfirgefið félagið og þar með hefði verðmæti rekstrar
orðið mjög takmarkað. Stjórn félagsins með stjórnendur þess unnu málið í góðri
trú meðal annars með breskum ráðgjöfum og lögmönnum. Stjórn Eimskips telur sig
hafa haft fullgildar heimildir til að fresta tímabundið birtingu upplýsinga um
erfiðleika í rekstri Innovate og það er mat stjórnar að upplýsingaskylda
félagsins hafi myndast í maí.  Með því að fresta tímabundið birtingu upplýsinga
um rekstrarvanda Innovate frá maí fram í júní var stjórn Eimskips að vernda
lögmæta hagsmuni og forða félaginu frá frekari tjóni. Telur stjórn Eimskips að
tekist hafi að vernda hagsmuni kröfuhafa Innovate og aflétta ábyrgðum sem
Eimskip var í fyrir Innovate, einkum ábyrgð gagnvart Glitni banka hf., samtals
að fjárhæð 9,5 milljónir GBP. Loks var verið eftir fremsta megni að vernda
hagsmuni kröfuhafa sem Innovate bar skylda til samkvæmt enskum lögum. 

Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að félagið hafi brotið
gegn lögum um verðbréfaviðskiptum með því að tilkynna ekki strax í febrúar um
erfiðleika í rekstri Innovate. Ekki er fallist á rökstuðning Eimskips um að
upplýsingaskylda hafi fyrst stofnast í maí og heimilt hafi verið að fresta
birtingu upplýsinga. 
Kemur fram í ákvörðun FME að brotið hafi staðið í afar langan tíma, tæplega 4
mánuði, og að á tímabilinu voru umtalsverð viðskipti með hluti í félaginu.
Slíkt umfang viðskipta á tímabilinu auk þeirrar breytinga sem voru á gengi
hluta í félaginu eftir birtingu upplýsinganna auka alvarleika brots félagsins
og er lýsandi fyrir þau áhrif sem þetta hafði á markaðinn, einkum fyrir þá
aðila sem keyptu hluti í félaginu á tímabilinu. Þá taldi FME að Eimskip hafi
ekki getað sýnt fram á að undanþáguákvæði 3. mgr. 122. gr. laga um
verðbréfaviðskipti  hafi verið fullnægt og því hafi Eimskip brotið gegn 1. mgr.
122. gr. um tafarlausa tilkynningu innherjaupplýsinga. Fram kemur í ákvörðun
FME að viðurlögum sé beitt óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða
gáleysi sbr. 4. mgr. 141. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Þá kemur fram á
ákvörðun FME að tilgreind lagagrein geri ekki sérstakan greinarmun á stigi
ásetnings eða gáleysis.Var það jafnframt mat stjórnar FME að ekki sé ástæða til
að vísa málinu til refismeðferðar hjá ríkislögreglustjóra, heldur sé það þess
eðlis að rétt sé að ljúka því með stjórnvaldssekt í samræmi við heimildir FME.
Við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssektar var litið til atvika máls og
fyrirliggjandi gagna, sérstaklega með tilliti til alvarleika brotsins og
háttsemi stjórnenda Eimskips, tímabilsins sem brotið náði yfir og umfangs
þeirra viðskipta sem urðu á tímabilinu. Þótti hæfilegt að gera Eimskip að
greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 20 milljónir króna. 

Félagið mun fara yfir forsendur ákvörðunarinnar með lögmönnum sínum og í
kjölfarið taka ákvörðun um hvort það höfði mál til ógildingar ákvörðunarinnar
fyrir dómstólum, en félagið hefur til þess þrjá mánuði.