Ábyrgð Eimskips vegna XL gjaldfærð Í september sl. tilkynnti Eimskip að ábyrgð myndi falla á félagið vegna gjaldþrots XL Leisure í Englandi, að fjárhæð um 207 milljónir Evra. Nokkur óvissa hefur verið um kröfuna eftir að Samson eignarhaldsfélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota. Eimskip mun færa kröfuna til gjalda á fjórða ársfjórðungi en félagið mun jafnframt vinna að því að ná samkomulagi um kröfuna við eiganda hennar. Aðrar ábyrgðir og gjaldfærslur Auk gjaldfærslu vegna XL ábyrgðar eru áætlaðar gjaldfærslur vegna virðisrýrnunar eigna, fyrst og fremst vegna viðskiptavildar á frystigeymslustarfsemi á meginlandi Evrópu, sem nú er í sölumeðferð. Einnig hafa fallið á Eimskip ábyrgðir vegna leigugreiðslna XL flugvéla, eins og kom fram í ársreikningi félagsins. Fjárhæðir ábyrgðanna liggja ekki enn fyrir en viðræður við kröfuhafa standa yfir. Loks er að geta að vegna óhagstæðrar gengisþróunar, einkum styrkingar Bandaríkjadollars gagnvart Kanadadollar, mun gengistap á fjórða ársfjórðungi vera töluvert hærra en búist var við. Þar sem endurskoðun á virðisrýrnunarprófum og ársreikningi félagsins er ekki lokið er enn óljóst hver heildargjaldfærsla vegna virðisrýrnunar mun verða á fjórða ársfjórðungi. Ljóst er þó að hún mun ganga stórlega á eigið fé félagsins og munar þar mest um gjaldfærslu vegna XL ábyrgðar. Áfram unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Eins og fram hefur komið hefur Eimskip unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu samstæðunnar undanfarna mánuði með innlendum og erlendum ráðgjöfum, en ráðgert er að henni ljúki á fyrri helmingi ársins 2009. Lögð hefur verið áhersla á að selja hluta erlendra eigna sem ekki tengjast kjarnastarfsemi félagsins, með það að markmiði að greiða niður skuldir og létta á fjármagnskostnaði. Eimskip er í viðræðum við helstu lánveitendur sína um frestun vaxtagreiðslna og afborgana lána til að vernda lausafjárstöðu félagsins á meðan á söluferli eigna stendur yfir. Viðbrögð lánveitenda hafa almennt verið góð. Þrátt fyrir að efnahagsástandið á Íslandi hafi verið mjög erfitt hefur Eimskip tekist að tryggja lausafjárstöðu félagsins. Reiknað er með að sölu eigna í Norður-Ameríku ljúki um mánaðarmótin janúar-febrúar 2009 og léttir salan verulega á skuldsetningu félagsins. Grunnrekstur Eimskips traustur Þrátt fyrir erfiða skuldastöðu félagsins og erfið skilyrði á fjármálamarkaði gengur grunnrekstur félagsins vel. Vel hefur gengið að aðlaga rekstur félagsins að þeim samdrætti sem hefur verið í flutningum til Íslands. Félagið hefur á undanförnum vikum fækkað skipum í rekstri tengdum Íslandi úr 11 í átta, auk þess að gripið var til uppsagna og launalækkana ásamt öðrum hagræðingaraðgerðum. Áætlað er að þessar aðgerðir skili um 2,4 milljarða króna sparnaði á ári. Lausafjárstaðan er góð og grunnrekstur Eimskips er traustur. Félagið mun áfram veita viðskiptavinum félagsins trausta og góða þjónustu. Nánari upplýsingar veitir Gylfi Sigfússon, forstjóri Hf. Eimskipafélags Íslands.
Hf. Eimskipafélag Íslands sendir frá sér afkomuviðvörun vegna fyrirséðrar gjaldfærslu á 4. ársfjórðungi
| Source: Hf. Eimskipafélag Íslands