- Yfirlýsing frá Exista í kjölfar ákvörðunar Kauphallar


Exista undrast ákvörðun Kauphallar frá því í dag 20. desember enda er þar
algerlega litið framhjá sjónarmiðum félagsins í viðkomandi máli. Samkvæmt
ákvörðuninni bar Exista að hefja skráningarferli á nýjum hlutabréfum í flokki
sem Kauphöllin hafði þegar samþykkt að taka úr viðskiptum í Kauphöllinni og
hluthafafundur Exista hafði auk þess farið fram á að yrði afskráður tafarlaust.
Vandséð er hvernig slíkt skráningarferli hefði þjónað hagsmunum fjárfesta og
hluthafa félagsins. Exista hefur jafnframt leitast við að upplýsa fjárfesta um
óvissa stöðu félagsins eins og kostur er, án þess að gefa út ótímabærar
áætlanir og ágiskanir um væntanlega útkomu viðræðna sem félagið á nú í við tugi
innlendra og erlendra fjármálastofnana. Með þeim hætti telur Exista að fylgt
hafi verið ábyrgri upplýsingagjöf til fjárfesta. Exista er því ósammála
ákvörðun Kauphallar en hyggst að öðru leyti ekki tjá sig um hana að svo stöddu.