Viðræður við Íbúðalánasjóð um sölu á hluta af íbúðalánum SPRON að verðmæti 20 milljarða króna eru á lokastigi. Heildarútlán SPRON við níu mánaða uppgjör félagsins árið 2008 námu 206,5 milljörðum króna. Lánin verða seld á bókfærðu verði og fær SPRON greitt 80% af andvirði lánanna strax en 20% þeirra greiðast síðar. Sala íbúðalánanna hefur engin áhrif á eiginfjárstöðu SPRON en markmiðið með sölunni er að renna traustari stoðum undir lausafjárstöðu félagsins. Lánin sem um ræðir eru innlend íbúðalán og hefur sala þeirra til Íbúðalánasjóðs engin áhrif á lántakendur þar sem SPRON mun annast alla umsýslu þeirra eins og áður. Frekari upplýsingar veitir Guðmundur Hauksson forstjóri í síma 550 1213.