- Upplýsingar um rekstur félagsins árið 2008


Bakkavör Group hf (Bakkavör) birtir eftirfarandi bráðabirgðaupplýsingar um
rekstur félagsins árið 2008, en niðurstöður endurskoðaðs ársuppgjörs verða
birtar þann 26. mars næstkomandi. 

•  Velta Bakkavarar árið 2008 jókst um u.þ.b. 10%. Á fjórða ársfjórðungi jókst
   veltan um u.þ.b.11%.
 
•  Afkoma félagsins hefur haldið áfram að markast af krefjandi
   rekstrarumhverfi. 

•  Verulegur einskiptiskostnaður m.a. vegna hagræðingaraðgerða árið 2008, einkum
   á fjórða ársfjórðungi. 

•  Stærstur hluti pundainnstæðu félagsins í Nýja Kaupþingi hefur verið leystur
   út - ráðgert er að féð fáist að fullu leyst út í pundum um miðjan apríl. 

Rekstur félagsins árið 2008

Velta ársins 2008 er í samræmi við væntingar stjórnenda en sala félagsins jókst
um u.þ.b. 10% frá fyrra ári; sala í undirliggjandi rekstri er óbreytt á milli
ára. Í fjórða ársfjórðungi jókst sala um u.þ.b. 11% frá fyrra ári, þar af varð
söluaukning í undirliggjandi rekstri um u.þ.b. 1% sem öðru fremur má rekja til
aukningar í sölu á tilbúnum réttum félagsins. 

Eins og áður hefur komið fram hafa hækkanir á hráefnis- og orkukostnaði,
kostnaður vegna hagræðingar í framleiðslu félagsins á tilbúnum réttum, lakari
sala yfir sumartímann og aukinn kostnaður vegna markaðsstarfs dregið úr afkomu
félagsins. Því er gert ráð fyrir að EBITDA félagsins árið 2008 að undanskildum
kostnaði vegna hagræðingar og hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga verði
u.þ.b. 109 milljónir punda. 

Bakkavör fjárfesti fyrir u.þ.b 50 milljónir punda í fastafjármunum árið 2008,
en félagið réðst meðal annars í smíði tveggja nýrra verksmiðja. Fjárfestingin
er í samræmi við áherslur félagsins um að viðhalda mikilli framleiðslugetu.
Þessi umtalsverða fjárfesting, auk kostnaðar vegna hagræðingar, hefur hins
vegar haft áhrif á sjóðstreymi félagsins árið 2008. Sterkt sjóðstreymi er hins
vegar einkennandi fyrir rekstur Bakkavarar og er reksturinn vel innan marka
lánasamninga. Stjórn Bakkavarar telur að félagið sé vel í stakk búið til að
skila traustu sjóðstreymi á þessu ári. 

Hagræðing í rekstri

Stefna félagsins er að auka hagkvæmni í rekstri og hefur það undanfarið fylgt
viðamikilli hagræðingaráætlun, m.a. með endurskipulagningu og lokunum
verksmiðja, með það að markmiði að draga úr rekstrarkostnaði. Félagið er því
vel í stakk búið til að bregðast við breyttri eftirspurn vegna versnandi
efnahagsástands á mörkuðum félagsins. 

Áætlaður kostnaður vegna hagræðingaraðgerða á árinu 2008 nemur 19 milljónum
punda en auk þess verða færðar til gjalda 23 milljónir punda í virðisrýrnun
eigna sem þessu tengjast. Gert er ráð fyrir að jákvæð áhrif þessara aðgerða
muni á árinu 2009 vega að fullu upp beinan kostnað sem féll á árinu 2008. 

Síðasti ársfjórðungur 2008 einkenndist einnig af óróleika á fjármálamörkuðum og
varð 28 milljóna punda tap á vaxtaskiptasamningum og 23 milljóna punda
gengistap af lánum félagsins í evrum og dollurum. Hvorugur þessara liða hefur
áhrif á sjóðstreymi félagsins. Þessi kostnaður bætist við annan
einskiptiskostnað sem áður hefur verið tilkynnt um, annars vegar vegna 20
milljón punda gjaldfærslu skatta vegna afnáms skattaívilnunar af iðnaðarhúsnæði
í Bretlandi og hins vegar vegna taps á fjárfestingum í Greencore Group PLC og
Camposol sem nemur samtals 63 milljónum punda. 

Innstæða og fjármögnun félagsins

Bakkavör hefur nú innleyst 104 milljónir punda af reikningi félagsins hjá Nýja
Kaupþingi banka en upphafleg fjárhæð nam 150 milljónum punda. Þessir fjármunir
nýtast einkum til greiðslu af 700 milljóna punda sambankaláni félagsins.
Samkvæmt samkomulagi við Nýja Kauþþing banka mun innstæðan fást leyst út að
fullu um miðjan apríl. 

Viðræður við skuldabréfaeigendur, aðila að 700 milljón punda sambankaláni
félagsins og aðra skammtímalánveitendur halda áfram og er stjórnin þess
fullviss að félagið njóti áfram stuðnings þeirra. Nánari skil verða gerð á
stöðu ofangreindra mála við birtingu ársuppgjörs félagsins í mars. 



Nánari upplýsingar:	

Ísland:
Snorri Guðmundsson	
Fjárfestatengsl	
Bakkavör Group hf
Sími: 550 9710
Farsími: 858 9710	
Tölvupóstur: snorri@bakkavor.com
Vefsíða: www.bakkavor.com

Utan Íslands:
Fiona Tooley
Citigate Dewe Rogerson
Farsími: +44 (0) 7785 703523
Sími: +44 (0)121 455 8370
Tölvupóstur: fiona.tooley@citigatedr.co.uk

Attachments

2009-02-05 bakk omx trading update islenska.pdf