Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti í dag beiðni skilanefndar Kaupþings Banka hf. um framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar til 13. nóvember 2009. Ólafur Garðarsson hrl., aðstoðarmaður bankans á greiðslustöðvunartímabili hélt kynningarfund fyrir lánardrottna þann 5. febrúar sl. Á fundinum var lögð fram skýrsla um framvindu mála frá því að bankinn leitaði til Fjármálaeftirlitsins þann 9.október 2008. Jafnframt voru þar kynntar fjárhagsupplýsingar sem og bráðabirgðamat á eignum bankans sem miðaðist við 15.nóvember 2008. Gögn sem lögð voru fram á fundinum ásamt fundargerð eru öllum aðgengileg á upplýsingavef bankans, www.kaupthing.com. Aðstoðarmaður bankans í greiðslustöðvun kynnti sérstaklega áform skilanefndar og aðstoðarmanns um að óska eftir því við héraðsdóm að heimild Kaupþings til greiðslustöðvunar verði framlengd um níu mánuði. Eitt af meginverkefnum skilanefndar og starfsmanna hennar hefur verið að vernda eignir og verja hagsmuni lánardrottna eftir fremsta megni. Það er álit skilanefndar og aðstoðarmanns að framhald greiðslustöðvunar sé forsenda þess að unnt sé að sinna þeim verkefnum sem unnið er að innan bankans með það að markmiði að gæta hagsmuna kröfuhafa, hámarka endurgreiðsluhlutfall krafna og tryggja jafnræði á milli kröfuhafa. Bankinn mun mánaðarlega setja saman skýrslu til kröfuhafa sem verður öllum aðgengileg á upplýsingavef bankans, www.kaupthing.com, þar sem kröfuhöfum og öðrum gefst tækifæri á að fylgjast með þeim meginskrefum sem stigin hafa verið og þeim árangri sem náðst hefur frá útgáfudegi síðustu skýrslu. Frekari upplýsingar veitir: Nafn: Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings Banka hf. Netfang: steinar@icelaw.is Nánari upplýsingar um Kaupþing Banka má finna á vef bankans, www.kaupthing.com
Greiðslustöðvun Kaupþings Banka hf. framlengd til 13. nóvember 2009
| Source: Kaupþing banki hf.