- Afkoma HB Granda hf. á árinu 2008


Afkoma HB Granda hf. árið 2008
•	Rekstrartekjur ársins voru 124 m€, en voru 141 m€ árið áður
•	EBITDA var 30 m€ (24 %) en var 31 m€ (22 %) árið 2007
•	Hagnaður ársins var 16 m€, en var 20 m€ árið áður

Uppgjör í evrum
HB Grandi birtir nú uppgjör sitt í fyrsta sinn í evrum.  Slíkt uppgjör gefur
betri mynd af afkomu og stöðu félagsins en uppgjör í íslenskum krónum, þar sem
stærstur hluti tekna er í evrum, sem og stór hluti gjalda.  Þá hefur evran mest
vægi í samsetningu eigna og skulda og þar með eigin fé.  Til samanburðar hefur
ársreikningur ársins 2007 verið umreiknaður í evrur miðað við lokagengi þess
árs. 

Rekstur ársins 2008
Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2008 námu 124 m€, samanborið við 141 m€ árið
áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 30 m€ eða 24% af
rekstrartekjum, en var 31 m€ eða 22% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og
fjármagnsgjalda voru neikvæð um 14 m€, en voru jákvæð um 6 m€ árið áður.  Inni
í þessum lið fyrir árið 2008 telst gengismunur lána, sem er nú mun minni stærð
en áður, þar sem hann ræðst eingöngu af innbyrðis breytingum á gengi erlendra
gjaldmiðla, en ekki af flökti á gengi íslensku krónunnar.  Fyrir árið 2007 er
hins vegar færður allur gengishagnaður vegna styrkingar krónunnar, umreiknaður
yfir í evrur.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1 m€.  Hagnaður fyrir
tekjuskatt var 5 m€, en hagnaður ársins var 16 m€.  Þessu veldur að
skattframtal er gert í íslenskum krónum og verður þar umtalsvert gengistap
vegna erlendra skulda, sem veldur skattafrádrætti.  Að auki er 3 m€ færðar til
tekna vegna lækkunar á skatthlutfalli úr 18% í 15%.  Hagnaður ársins 2007 var
20 m€. 
Við samanburð á milli ára ber að hafa í huga að í byrjun árs 2007 varð
nettóhagnaður af sölu skipa að fjárhæð 7 m€. 

Rekstur síðari helmings ársins 2008
Rekstrartekjur HB Granda hf. á síðari helmingi ársins 2008 námu 61 m€,
samanborið við 51 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var
19 m€ eða 30% af rekstrartekjum, en var 4 m€ eða 7% árið áður.  Áhrif
fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 9 m€, en um 12 m€ árið áður. 
Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1 m€, en óveruleg árið áður.  Hagnaður
tímabilsins nam 5 m€, en á sama tíma árið áður varð 11 m€ tap. 
Botnfiskskip félagsins veiddu mun meiri karfa en árið áður, en frystitogararnir
veiddu minni þorsk og ýsu.  Uppsjávarskipin veiddu mun meiri norsk-íslenska
síld, en minni kolmunna.  Þá varð mikil búbót af umtalsverðum makrílveiðum, sem
voru litlar árið áður.  Síldveiðar voru svipaðar á milli ára, en mun minna
nýttist til manneldisvinnslu en árið áður.  Afurðaverð í erlendri mynt lækkaði
heldur á milli ára, þó mismikið eftir fisktegundum og mörkuðum. 

Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 296 m€ í lok árs 2008. Þar af voru fastafjármunir
254 m€ og veltufjármunir 42 m€.  Í árslok nam eigið fé 125 m€.
Eiginfjárhlutfall var 42%, en var 35% í lok árs 2007. Heildarskuldir félagsins
voru í árslok 171 m€. 

Framvirkir gjaldmiðlasamningar
Viðskiptabankar félagsins hafa krafið félagið um uppgjör á framvirkum
gjaldmiðlasamningum að fjárhæð 3,0 m€ og er sú fjárhæð til varúðar færð til
skuldar á reikningum félagsins um áramót.  Félagið telur þó að m.v. rétt
uppgjör sé fjárhæðin 1,6 m€ og hefur þegar greitt hluta hennar í samræmi við
það. 

Skipastóll og afli
Í skipastól HB Granda hf. eru 5 frystitogarar, 3 ísfisktogarar og 4
uppsjávarfiskveiðiskip. 
Á árinu 2008 var afli skipa félagsins 47 þúsund tonn af botnfiski og 126 þúsund
tonn af uppsjávarfiski. 

Aðalfundur
Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 3. apríl 2009 í matsal
félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00.  Stjórn félagsins
leggur til að greiddur verði 8% arður. 

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur		3. apríl 2009
Birting ársskýrslu	3. apríl 2009
Arðgreiðsludagur	27. apríl 2009
Hálfsársuppgjör	24.-28. ágúst 2009
Ársuppgjör 2009	8. - 12. mars 2010

Attachments

frettatilkynning afkoma hb granda hf 2008.pdf hb grandi arsreikningur 2008.pdf