- Ársreikningur 2008


Mjög ásættanleg rekstrarniðurstaða í ársreikningi Mosfellsbæjar fyrir árið 2008


Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2008 var kynntur á 512. fundi
bæjarstjórnar miðvikudaginn 13. maí 2009 og honum vísað til seinni umræðu sem
er fyrirhuguð er 27. maí. 

Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2008 gekk vel - ekki síst ef miðað er við
aðstæður í þjóðfélaginu á síðasta ársfjórðungi. Rekstrarafgangur af A-hluta að
undanskildum fjármagnsgjöldum var 414 milljónir króna. Fjármagnsgjöld voru
tæpar 439 milljónir og er því rekstrarhalli á A-hluta sem nemur rúmum 25
milljónum á árinu 2008. Veltufé frá rekstri var 402 milljónir og handbært fé
frá rekstri var 541 milljón. 

Mosfellsbær eru þakklátur starfsfólki á þeim fjölmörgu stofnunum sem tilheyra
Mosfellsbæ fyrir þá ráðdeild sem sýnd hefur verið á því samdráttarskeiði sem
við göngum nú í gegnum. Brugðist var við af mikilli ábyrgð og hagsýni strax í
október þegar ljóst var í hvað stefndi í kjölfar bankahrunsins. Þau viðbrögð
skila sér í ársreikningnum og er það starfsfólki Mosfellsbæjar að þakka hve vel
tókst til með rekstur stofnana bæjarins á síðasta ári þrátt fyrir miklar
verðlagshækkanir og krefjandi rekstrarumhverfi. 

Mosfellsbær hefur ekki, frekar en önnur sveitarfélög, farið varhluta af
efnahagsástandinu. Þrátt fyrir að hafa verið vel í stakk búið til að bregðast
við utanaðkomandi erfiðleikum ollu fjármagnsgjöld því að rekstrarniðurstaða
A-hluta var neikvæð. Samt sem áður r lánasafn Mosfellsbæjar að stórum hluta í
íslenskri mynt. 

Mosfellsbær er ekki skuldsett bæjarfélag og notaði góðærið til að greiða niður
lán.  Ekki höfðu verið tekin langtímalán síðan árið 2004.  Þetta var gert meðal
annars til þess að búa svo um hnútana að hægt yrði að mæta hremmingum kæmu þær
upp. 

Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins með um 8400 íbúa og
hefur þeim fjölgað um 57% á síðustu tíu árum. Í aðeins einu öðru sveitarfélagi
á landinu, Álftanesi, hefur íbúum fjölgað hlutfallslega meira en í Mosfellsbæ á
síðasta áratug. 

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Mosfellsbæ og er áformað að reisa þrjá
nýja skólar á næstu árum. Krikaskóli, sem er skóli fyrir 1-9 ára börn, verður
tekinn í notkun um næstu áramót og áætlað er að nýr framhaldsskóli verði
byggður innan tveggja ára en hann tekur til starfa í bráðabirgðahúsnæði í
haust. Þá er stefnt að því að byggja nýjan Leirvogstunguskóla, sem einnig
verður fyrir 1-9 ára börn, um leið og þörf fyrir hann verður. Jafnframt tók
Mosfellsbær yfir rekstur Íþróttamiðstöðvarinnar Lágafells í lok síðasta árs og
er því ný og glæsileg sundlaug að fullu komin í eigu bæjarins. 

Stefna Mosfellsbæjar hvað varðar framkvæmdir í því efnahagsástandi sem við búum
nú við eru þær að áfram verður haldið með þær framkvæmdir á vegum
sveitarfélagsins sem þegar eru hafnar en ekki verður ráðist í nýjar framkvæmdir
nema fjármögnun þeirra sé tryggð á viðunandi kjörum. 

Að meðtöldum B-hluta stofnunum var neikvæð rekstrarniðurstaða upp á 168
milljónir króna. Skýrist það af vaxtagjöldum og gengistapi upp á um 694
milljónir. 

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir: „Ljóst er að rekstrarumhverfi
sveitarfélaga er mjög erfitt um þessar mundir og eru mörg sveitarfélög mjög
illa stödd. Nýverið hafa stór sveitarfélög birt ársreikninga sína og mörg
þeirra hafa því miður verið að skila nokkurra milljarða rekstrarhalla. Þetta
sýnir hversu starfsumhverfið er viðkvæmt og hve nauðsynlegt er að gæta aðhalds,
útsjónarsemi og varfærni á tímum sem þessum. 

Það er ánægjulegt fyrir íbúa Mosfellsbæjar að fjárhagsstaða bæjarsjóðs sé sterk
þrátt fyrir aðstæður í þjóðfélaginu og að sveitarfélagið sé í stakk búið til að
takast á við tímabundin áföll. Hinu ber þó ekki að leyna að ástandið er
krefjandi og að tekjur sveitarfélaga, þar með talið Mosfellsbæjar, eru að lækka
verulega vegna aukins atvinnuleysis og lækkandi tekna íbúa. Því er nauðsynlegt
að taka erfiðar ákvarðanir á tímum sem þessum og hluti af þeim birtist í
fjárhagsáætlun ársins 2009.” 



Meðfylgjandi:
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2008.
Lykiltölur úr ársreikningi Mosfellsbæjar 2008.
Lykiltölur úr efnahagsreikningi Mosfellsbæjar 2008.
Lykiltölur úr ársreikningi Mosfellsbæjar sl. 7 ár.

Ársreikning bæjarsjóðs Mosfellsbæjar má nálgast á heimasíðu bæjarins www.mos.is
undir liðnum stjórnsýsla. 

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, forstöðumaður
kynningarmála hjá Mosfellsbæ,  s. 894 9050/525 6708 sigridurdogg@mos.is Sjá
nánar: www.mos.is 


Lykiltölur: Sjá viðhengi

Attachments

frettatilkynning.pdf arsreikningur mosfellsbr 2008 eftir fyrri umru.pdf mosfellsbr toflur 2008.xls