- Ný stjórn Byrs


Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Byrs sparisjóðs sem haldinn var 13. maí á
Hilton Nordica í Reykjavík. Tveir listar voru í kjöri og hlaut B-listi undir
forystu Jóns Kr. Sólnes 48,73% atkvæða en A-listi, undir forystu Sveins
Margeirssonar hlaut 46,13% atkvæða. Í stjórn Byrs sparisjóðs fyrir næsta
starfsár voru því kjörnir Jón Kr. Sólnes, (B), Sveinn Margeirsson (A),
Guðmundur Geir Gunnarsson (B), Arnar Bjarnason (A) og Matthías Björnsson (B). Í
varastjórn voru kjörnir Þorsteinn Ólafur Þorsteinsson (B) og Stefán Franklín
(A). 

Á fundinum spunnust miklar umræður um hrun íslenska fjármálakerfisins sl. haust
og afkomu Byrs á síðasta ári. Fram kom í ræðu Ragnars Z. Guðjónssonar
sparisjóðsstjóra að rekstraráætlun Byrs fyrir árið 2009 geri ráð fyrir jákvæðri
afkomu og að þrátt fyrir ágjöfina ætti Byr mikla möguleika til að ná fyrri
styrk á næstu árum.  Hann sagði m.a.: 

„Forsenda endurreisnar íslensks efnahagslífs er tilvist sjálfstæðra
fjármálastofnana sem geta stutt við heimilin og fyrirtækin í landinu. Forsenda
þess að Byr geti veitt samkeppnishæfa þjónustu og gætt hagsmuna viðskiptavina
sinna, er að fyllsta jafnræðis sé gætt í öllum aðgerðum stjórnvalda við
endurreisn íslensks fjármálakerfis. Virk samkeppni fjármálafyrirtækja með
dreift eignarhald er forsenda þess að fjárhagur lands og þjóðar rísi á
heilbrigðum grunni.“ 

Atkvæði í stjórnarkjöri greiddu 633 og 5,14% seðla voru auðir. Fundinn sátu
fulltrúar 78% virkra atkvæða en stofnfjáreigendur í Byr sparisjóði eru 1.512
talsins.  Á fundinum var samþykkt að enginn arður yrði greiddur af stofnfé
vegna síðasta árs og ekki nýtt heimild til endurmats stofnfjár samkvæmt 67.
grein laga um fjármálafyrirtæki. 

Nánari upplýsingar:
Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri, sími 575 4000.