Stjórnir þriggja danskra dótturfélaga Landic Property hf., Keops Development A/S, Landic Property A/S og Landic Investment A/S, hafa í dag lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti hjá dómstólum í Kaupmannahöfn. Starfsemi þeirra félaga sem eiga og reka fasteignasöfn á Íslandi, Svíþjóð og í Danmörku er óbreytt og leigutakar félagsins verða ekki fyrir áhrifum. Fjárhagsleg endurskipulagning starfsemi Landic Property á Íslandi heldur áfram skv. áætlun. Síðastliðna tvo mánuði hefur verið unnið að frágangi á sölu fjölda erlendra dótturfélaga Landic Property, sem tilkynnt var þann 16. apríl sl. Sala fasteignasafns Landic Property í Finnlandi er frágengin, og áfram verður unnið að sölu á erlendu fasteignasafni Landic Property, að undanskildum ofangreindum þremur félögum, þar sem endurskipulagning og sala þeirra félaga gekk ekki eftir. Fasteignarekstur Landic Property á Íslandi gengur hins vegar samkvæmt áætlun og fjárhagsleg endurskipulagning móðurfélagsins, Landic Property hf., sem unnin er í nánu samráði við helstu lánardrottna, miðar vel áfram. Eins og áður hefur komið fram er eigið fé Landic Property hf. neikvætt og miða áætlanir um endurskipulagningu félagsins að því að kröfuhafar eignist allt hlutafé í félaginu. Viðar Þorkelsson, forstjóri Landic Property: „Það eru vissulega vonbrigði að ekki hafi tekist að bjarga þessum dönsku dótturfélögum frá gjaldþroti. Söluferli annarra erlendra eigna Landic Property heldur hins vegar áfram, sem og fjárhagsleg endurskipulagning móðurfélagsins í samstarfi við lánardrottna. Landic Property mun í framtíðinni einbeita sér að rekstri fasteigna á Íslandi þar sem dótturfélag þess Landic Ísland er stærsta fasteignafélag landsins, með yfir 120 fasteignir sem samtals eru um 400 þúsund fermetrar. Sá rekstur gengur vel og á því munum við byggja”. Gjaldþrot dönsku dótturfélaganna þriggja hefur ekki áhrif á eftirtalin félög: Landic Property Denmark A/S (áður Atlas), Landic Property Denmark II A/S (Magasin/Illum fasteignirnar) auk dótturfélaga, Landic Property Bonds I A/S ( SAS-portfolio), Landic Property Bonds VI (Sweden) A/S, Landic Property Bonds VII (Stockholm) A/S, Landic Property Bonds VIII (Sverige II) A/S,Landic InvestorService A/S, K/S Næstved kaserne, K/S Hillerød Port og Udviklingsselskabet Light house,Landic Ísland ehf., Langastétt ehf., Landsafl ehf., Landic Property Ísland ehf., Austurstræti 14 ehf., FS6 ehf. og Líf fasteignir ehf. Frekari upplýsingar veitir: Viðar Þorkelsson forstjóri Landic Property hf. Sími 669 4444 E-mail: vth@landicproperty.com
Þrjú dönsk dótturfélög Landic Property hf. leggja fram beiðni um gjaldþrotaskipti
| Source: Landic Property hf.