Leiðrétting: - Niðurstöður yfirtökutilboðs Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa Alfesca


Leiðrétting á eignarhlut í tilkynningu um niðurstöðu yfirtökutilboðs Lur Berri
Iceland ehf. til hluthafa Alfesca 
Í tilkynningu dags. 18. ágúst 2009 um niðurstöðu yfirtökutilboðs var
eignarhlutur tilboðsgjafa oftalinn um 30 hluti. Lur Berri Iceland ehf. hefur
tryggt sér 1.525.648.531 hlut í Alfesca hf. (en ekki 1.525.648.561 hlut eins og
ranglega var tilgreint). 

Að öðru leyti hefur leiðrétting þessi ekki áhrif á þær upplýsingar sem komu
fram í tilkynningunni. 

Hér á eftir fer leiðrétt tilkynning.
__________________________



Niðurstöður yfirtökutilboðs Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa Alfesca

Yfirtökutilboð Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa Alfesca hf. (“félagið”) sem
hófst 2. júlí 2009 lauk þann 17. ágúst 2009. 

Yfirtökutilboðið var samþykkt af eigendum 1.354.276.604 hluta í Alfesca hf. sem
samsvarar 23,04% af útgefnu hlutafé félagsins. Lur Berri Iceland ehf. hefur því
tryggt sér 1.525.648.531 hluti í Alfesca, eða sem samsvarar 25,96% af útgefnu
hlutafé Alfesca hf. þar sem það átti við upphaf tilboðsins 171.371.927 hluti
eða 2,92% af útgefnu hlutafé félagsins. 

Fyrir tilboðið áttu samstarfsaðilar, sem samanstanda af Lur Berri Holding SAS
(móðurfélag Lur Berri Iceland), Kjalar Invest B.V., Alta Food Holding B.V.,
Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. og tilteknir stjórnendur Alfesca hf.,
samanlagt 68,30% af útgefnu hlutafé Alfesca hf. Í kjölfar tilboðsins hafa
samstarfsaðilarnir tryggt sér 91,34% af útgefnu hlutafé Alfesca hf. og munu
fara með samsvarandi atkvæðisrétt þegar uppgjör á yfirtökutilboðinu hefur farið
fram. 

Hluthafar sem samþykkt hafa tilboðið munu fá kaupverð hlutanna greitt eigi
síðar en 24. ágúst 2009 í samræmi við skilmála tilboðsins, samhliða því að Lur
Berri Iceland ehf. fær hlutina framselda. 

Í ljósi þess að samstarfsaðilarnir eiga sameiginlega meira en 90% útgefins
hlutafjár og fara með meira en 90% atkvæðisréttar í Alfesca hf. hyggst Lur
Berri Iceland ehf. nú leggja til við stjórn félagsins að hlutir í eigu annarra
hluthafa Alfesca hf. verði innleystir með heimild í 110. gr. laga nr. 108/2007
um verðbréfaviðskipti. Ennfremur, líkt og kveðið er á um í tilboðsyfirlitinu
sem dagsett er 25. júní 2009, munu samstarfsaðilarnir nú gera viðeigandi
ráðstafanir svo hlutafé Alfesca hf. verði tekið úr viðskiptum af aðallista
NASDAQ OMX Iceland.