- Innlausn á hlutum í Alfesca hf.


Í kjölfar uppgjörs á yfirtökutilboði Lur Berri Iceland ehf. („Lur Berri
Iceland“) í hluti í Alfesca hf. („Alfesca“) munu Lur Berri Iceland og
samstarfsaðilar eiga samtals 91,34% af heildarhlutafé og fara með 91,87%
atkvæðisréttar í Alfesca. Í ljósi þess hafa Lur Berri Iceland og stjórn Alfesca
samþykkt að þeir hluthafar í Alfesca sem ekki samþykktu yfirtökutilboð Lur
Berri Iceland og eru ekki í hópi samstarfsaðila um stjórn og rekstur Alfesca
skuli sæta innlausn Lur Berri Iceland á hlutum sínum, sbr. 1. mgr. 110. gr.
laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. 

Innlausnarverðið er 4,5 kr. fyrir hvern hlut í Alfesca. Greitt verður fyrir
hlutina með reiðufé. Er um að ræða sama verð og endurgjald og Lur Berri Iceland
bauð hluthöfum Alfesca í yfirtökutilboði frá 25. júní 2009. Gert er ráð fyrir
að innlausnartímabil hefjist 26. ágúst 2009, standi í fjórar vikur og greiðsla
til hluthafa verði innt af hendi 29. september 2009. 

Hluthafar Alfesca, sem innlausnin tekur til, munu fá senda tilkynningu um
innlausnina ásamt framsalseyðublaði. Tilkynningin verður birt í dagblöðum í
samræmi við samþykktir Alfesca um boðun aðalfundar, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga
um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Einnig verður hægt að nálgast tilkynninguna
og framsalseyðublaðið hjá Nýja Kaupþingi banka hf., Borgartúni 19, 105
Reykjavík.