- 6 mánaða uppgjör 2009


•  Rekstrartekjur fyrri árshelmings voru 56,7 m€, en voru 62,9 m€ árið áður

•  EBITDA var 12,9 m€ (22,8%), en var 13,0 m€ (20,6%) árið áður

•  Hagnaður tímabilsins var 6,0 m€, en var 10,8 m€ árið áður

Sjá töflu í viðhengi.

Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2009

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2009 námu 56,7 m€,
samanborið við 62,9 m€ árið áður.  Lækkun tekna á milli ára skýrist einkum af
lægri afurðaverðum í erlendri mynt og loðnuvertíðarbresti, sem þó var að hluta
veginn upp af aukinni veiði á norsk-íslenskri síld, makríl og gulldeplu. 
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 12,9 m€ eða 22,8% af
rekstrartekjum, en var 13,0 m€ eða 20,6% árið áður.  Hærra EBITDA hlutfall
skýrist m.a. af veikingu krónunnar.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda
voru jákvæð um 0,3 m€.  Á sama tíma árið áður voru áhrif fjáreignatekna og
fjármagnsgjalda samtals neikvæð um 5,5 m€.  Meginskýringin á mun á milli ára er
að gengismunur og verðbætur voru í ár jákvæð um 3,3 m€ vegna gengisbreytinga
mynta gagnvart evru, en í fyrra voru þessir liðir neikvæðir um 1,5 m€.  Áhrif
hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 1,6 m€, einkum vegna taps af fiskeldi í Síle.
 
Hagnaður fyrir tekjuskatt var 6,3 m€, en hagnaður tímabilsins var 6,0 m€. 
Tekjuskattur er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum og er því, vegna
gengisbreytinga, ekki í réttu hlutfalli við afkomu í evrum.  Hagnaður fyrri
helmings ársins 2008 fyrir tekjuskatt var 1,7 m€.  Hagnaður tímabilsins varð þá
10,8 m€, enda reiknaðist tekjuskattur þá til tekna upp á 9,1 m€ vegna
gengistaps í íslensku skattframtali. 

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 287,8 m€ í lok júní 2009. Þar af voru
fastafjármunir 248,5 m€ og veltufjármunir 39,3 m€.  Eigið fé nam 125,9 m€ og
var eiginfjárhlutfall 44,1%, en var 41,3% í lok árs 2008. Heildarskuldir
félagsins voru í júnílok 161,9 m€. 

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 13,0 m€ á fyrri helmingi ársins 2009, en 8,2 m€ á
sama tíma fyrra árs.  Fjárfestingahreyfingar námu 6,0 m€ og var stærsti hluti
þeirra tengdur uppbyggingu nýrrar fiskmjölsverksmiðju á Vopnafirði. 
Fjármögnunarhreyfingar námu 8,2 m€ og voru nettó afborganir langtímalána þar af
7,4 m€.  Handbært fé lækkaði því um 1,2 m€ og var í lok júní 5,2 m€. 

Skipastóll og afli

Í skipastól HB Granda hf. eru 5 frystitogarar, 3 ísfisktogarar og 4
uppsjávarfiskveiðiskip. 

Á fyrri helmingi ársins 2009 var afli skipa félagsins 25 þúsund tonn af
botnfiski og 45 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Attachments

afkoma hb granda hf 1h2009.doc tafla.xls hb grandi arshlutareikn 30 06 09.pdf