Atorka leggur fram tillögu að nauðasamningi


•Atorka hefur ákveðið að leggja fram beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um
 heimild til að leita nauðasamnings. 
•Frumvarp að nauðasamningi gerir ráð fyrir að lánardrottnar umbreyti kröfum í
 skuldabréf og hlutafé. 
•Frumvarpið gerir ráð fyrir að endurheimtur kröfuhafa verði a.m.k. 40% en
 samkvæmt efnahagsreikningi félagsins frá 30. september 2009 verða endurheimtur
 kröfuhafa ríflega 60%. 
•Virði skráðra eigna Atorku hefur hækkað umtalsvert á síðustu mánuðum og
 einnig eru batamerki sjáanleg á rekstri Promens, stærstu eign félagsins. 
•NBI hf., Íslandsbanki hf. og lífeyrissjóðir verða stærstu hluthafar Atorku
 við samþykkt nauðasamnings, en hlutafé núverandi hluthafa verður fært niður að
 fullu. 
•Eigendur 65% krafna á hendur félaginu hafa mælt með nauðasamningi. Ef
 kröfuhafar samþykkja nauðasamning félagsins verður fjárhagsleg staða Atorku
 trygg og eiginfjárhlutfall félagsins verður um 80%. Þannig verður Atorka vel í
 stakk búið til að styðja við eignir sínar. 
•Markmið samningsins er að vernda verðmæti eigna félagsins og hámarka virði
 þeirra fyrir lánardrottna. 


Stjórn Atorku hefur ákveðið að leggja fram beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um
heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína. Fjárhagsstaða Atorku
breyttist til hins verra við fall íslenska bankakerfisins á haustmánuðum 2008.
Fyrir fall bankanna var útlit fyrir að Atorka myndi standa af sér alþjóðlegu
efnahagskreppuna. Eftir fall bankanna og mikla gengislækkun íslensku krónunnar
varð stjórn Atorku hins vegar ljóst að nauðsynlegt væri að endurskipuleggja
fjárhag félagsins. 

Viðræður félagsins við lánardrottna hófust í október 2008 sem síðar leiddu til
þess að aðilar undirrituðu kyrrstöðusamning í febrúar 2009. Stjórn og
stjórnendur Atorku hafa lagt höfuðáherslu á að vernda verðmæti eigna félagsins
og jafnframt hafa þeir lagt mikla vinnu í að draga úr áhrifum
efnahagslægðarinnar á dóttur- og hlutdeildarfélög. 

Stjórn Atorku leggur áherslu á að með samþykkt nauðasamnings muni félagið geta
stutt við dóttur- og hlutdeildarfélög sín og hámarka þannig virði eigna. 
Forsendur nauðasamningsins gera ráð fyrir að endurheimtuhlutfall kröfuhafa
verði a.m.k. 40% en samkvæmt efnhagsreikningi félagsins frá 30. september 2009
verður endurheimtuhlutfallið 60%. Við undirbúning nauðasamningsins hefur stjórn
Atorku lagt áherslu á samstarf við alla hagsmunaaðila um úrlausn mála, að skapa
traustan ramma um stjórnun, eignarhald og að standa vörð um verðmæti eigna
Atorku til framtíðar. 

Þorsteinn Vilhelmsson, stjórnarformaður Atorku Group hf.:

„Nauðasamningurinn tryggir að hægt verði að endurskipuleggja fjárhag Atorku sem
orðið hefur fyrir skakkaföllum vegna almennrar efnahagslægðar í heiminum og
vegna hruns íslenska bankakerfisins. Stjórn Atorku telur að nauðasamningurinn
tryggi fjárhagslega getu félagsins til að styðja áfram vel við eignir þess. Nú
ríður á að nýta allan þann tíma sem nauðsynlegur er til að hámarka
endursöluverðmæti eignanna. Verðmæti eigna félagsins náði lágmarki í mars 2009
en hefur hækkað umtalsvert síðan. Skráðar eignir Atorku hafa hækkað um ríflega
100% á þessu tímabili. Þetta mun vonandi leiða til þess að endurheimtur
kröfuhafa verði talsvert hærri en nauðasamningurinn gerir ráð fyrir. Það eru
stjórn félagsins hins vegar mikil vonbrigði að þessu ferli ljúki án þess að
hluthafar félagsins fái nokkurn hlut í þeim viðsnúningi sem vonandi verður á
rekstri Atorku á næstum misserum.“ 


Frekari uppl. veitir: Arnar Már Jóhannesson, fjármálastjóri, í s. 540-6200

Attachments

atorka group - greinarger me nauasamningsfrumvarpi.pdf atorka group - kynning a hluthafafundi.pdf