Hluthafafundur Atorku Group hf. var haldinn á Hótel Hilton Reykjavík Nordica, fimmtudaginn 4. febrúar 2010. Á fundinum voru kjörnir í stjórn fulltrúar kröfuhafa en samþykkt var á hluthafafundi þann 22. janúar 2010 að færa niður hlutafé félagsins og með því efna nauðasamning félagsins sem kröfuhafar samþykktu þann 10. desember 2010. Að auki var samþykkt að samþykktum félagsins yrði breytt í þá veru að ekki verði kjörnir varamenn í stjórn. Nýja stjórn Atorku Group hf. skipa Þórður Ólafur Þórðarson stjórnarformaður, Jakob Bjarnason, Einar Páll Tamini, Halldór Bjarkar Lúðvígsson og Gunnar V. Engilbertsson. Með þessu lýkur nauðasamningsferli félagsins sem staðið hefur frá síðastliðnu vori sem fram fór í samvinnu fráfarandi stjórnar Atorku Group og kröfuhafa félagsins. Helstu verkefni nýrrar stjórnar á komandi mánuðum verður að leita leiða til þess að hámarka virði eignasafns Atorku Group og ráðstafa andvirði eignasafnsins til hluthafa félagsins í samræmi við ákvæði nauðasamnings félagsins. Stærstu hluhafar Atorku Group hf. í kjölfar nauðasamningsins eru eftirtaldir: NBI hf. 44,20% Íslandsbanki hf. 15,25% Arion Banki hf. 5,00% Glitnir Banki hf. 4,86% Drómi hf. 4,55% Núverandi eignarhlutföll hluthafa munu taka breytingum til lækkunar ef í ljós kemur að öllum kröfum á hendur félaginu hafi ekki verið lýst í tengslum við nauðasamningsferli félagins. Þá ríkir enn óvissa um gildi krafna á hendur félaginu sem byggja á afleiðusamningum þess, en úrlausn þess ágreiningsefnis mun verða vísað til dómstóla. Eigendur hinna umdeildu krafna munu fá úthlutað hlutafé í Atorku Group hf. í samræmi við nauðasamning félagsins er ágreiningsmálin hafa verið leidd til lykta. F.h. hönd Atorku Group hf. Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður.
Kröfuhafar taka við rekstri Atorku Group hf.
| Source: Atorka Group hf.