Afkoma HB Granda hf. árið 2009 • Rekstrartekjur ársins voru 117 m€, en voru 124 m€ árið áður • EBITDA var 32 m€ (27,4 %) en var 30 m€ (23,8 %) árið 2008 • Hagnaður ársins var 13 m€, en var 16 m€ árið áður Sjá viðhengi: Tafla Rekstur ársins 2009 Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2009 námu 117 m€, samanborið við 124 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 32 m€ eða 27,4% af rekstrartekjum, en var 30 m€ eða 23,8% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 2,9 m€. Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 2,4 m€, einkum vegna slæmrar afkomu fiskeldis í Síle. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 16 m€, en hagnaður ársins var 13 m€. Mun minna veiddist af ufsa og karfa árið 2009 en árið áður, bæði á frystitogurum og ísfisktogurum. Á móti kom að veiði frystitogara á gullaxi og úthafskarfa jókst verulega á milli ára, sem og þorskveiðar ísfisktogara. Eingöngu var gefinn út takmarkaður rannsóknarkvóti á loðnu, en árið áður veiddu skip félagsins 31.000 tonn. Einnig minnkaði verulega afli á íslenskri síld í kjölfar sýkingar stofnsins. Á hinn bóginn jókst afli á norsk-íslenskri síld umtalsvert og við bættust veiðar á gulldeplu. Hjá félaginu unnu að meðaltali 622 starfsmenn á árinu. Laun og launatengd gjöld námu samtals 36,7 m€ (6,3 milljarðar króna samanborið við 5,4 milljarða árið 2008). Efnahagur Heildareignir félagsins námu 289 m€ í lok árs 2009. Þar af voru fastafjármunir 247 m€ og veltufjármunir 42 m€. Í árslok námu heildarskuldir félagsins 156 m€ og eigið fé 133 m€. Eiginfjárhlutfall var 45%, en var 41% í lok árs 2008. Sjóðstreymi Handbært fé frá rekstri nam á árinu 33,2 m€. Þar af var 9,6 m€ varið í nettó fjárfestingar og 18,0 m€ í fjármögnunarhreyfingar, einkum afborganir langtímalána (17,2 m€). Hækkun á handbæru fé nam því 5,6 m€ og var handbært fé í árslok 12,0 m€. Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2009 (1 evra = 172,7 kr) verða tekjur 20,2 milljarðar króna, EBITDA 5,5 milljarðar og hagnaður 2,3 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2009 (1 evra = 179,9 kr) verða eignir samtals 51,9 milljarðar króna, skuldir 28,0 milljarðar og eigið fé 23,9 milljarðar. Skipastóll og afli Í skipastól HB Granda hf. eru 5 frystitogarar, 3 ísfisktogarar og 4 uppsjávarfiskveiðiskip. Á árinu 2009 var afli skipa félagsins 48 þúsund tonn af botnfiski og 100 þúsund tonn af uppsjávarfiski. Aðalfundur Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 23. apríl 2010 í matsal félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 12% arður af nafnverði hlutafjár, þ.e. arðgreiðsla að fjárhæð 204 millj. kr (um 1,1 millj. evra á lokagengi ársins 2009), sem samsvarar 0,9% af eigin fé eða 8,7% af hagnaði ársins. Fjárhagsdagatal Aðalfundur 23. apríl 2010 Birting ársskýrslu 23. apríl 2010 Arðgreiðsludagur 7. maí 2010 Hálfsársuppgjör 23.-27. ágúst 2010 Ársuppgjör 2010 14.-18. mars 2011