Samkomulag hefur náðst um að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) verði tekin fyrir í stjórn sjóðsins. Stefnt er að því að endurskoðunin verði rædd í framkvæmdastjórn sjóðsins 16. apríl næstkomandi. Eftir lok endurskoðunarinnar munu íslensk stjórnvöld hafa aðgang að þriðja hluta láns AGS að upphæð 20 milljarða króna (105 milljónir SDR eða nærri 159 milljónir bandaríkjadala). Íslensk stjórnvöld hafa sent sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu (e. Letter of Intent) í samræmi við reglur sjóðsins. Í henni er lýst þeim árangri sem þegar hefur náðst við að draga úr áhrifum bankahrunsins. Yfirlýsingin lýsir einnig næstu skrefum efnahagsáætlunarinnar sem leggja munu frekari grunn að efnahagsbata. Hún verður birt í heild þegar endurskoðunin hefur verið afgreidd í stjórn sjóðsins. Á undanförnum vikum hefur verið unnið að því að fá endurskoðun samstarfsáætlunarinnar afgreidda í stjórn sjóðsins, nú síðast með fundum efnahags- og viðskiptaráðherra með framkvæmdarstjóra og stjórnarmönnum sjóðsins í Washington á miðvikudaginn. Nánari upplýsingar veitir Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður ráðherra á benedikt.stefansson@evr. is og í síma 545-8800
Samkomulag um aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands
| Source: Ríkissjóður Íslands