Breytingar á reglum um gjaldeyrismál


Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um gjaldeyrismál í samræmi við
ákvæði laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum, þar sem mælt
er fyrir um að reglur um gjaldeyrismál skuli endurskoðaðar á sex mánaða fresti. 

Nýju reglurnar taka gildi í dag, 30. apríl 2010. Þær breytingar sem hafa verið
gerðar á eldri reglum fela að mestu í sér orðlagsbreytingar til að tryggja
samræmi í skýringu og túlkun þeirra. Þá mæla þær fyrir um lækkun á
hámarksfjárhæð heimildar til kaupa á erlendum gjaldeyri í reiðufé vegna
ferðalaga, sem breytist nánar tiltekið úr 500.000 krónum í hverjum
almanaksmánuði í 350.000 krónur. Jafnframt hefur verið gerð breyting á
sérstökum undanþágum til að taka af allan vafa um ólögmæti svokallaðra
aflandsviðskipta. 

Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður
gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í síma 569 9600. 

Sjá reglur um gjaldeyrismál er taka gildi 30. apríl 2010:
Reglur um gjaldeyrismál  Nr. 370, frá 29. apríl 2010.