Skipulags- og áherslubreytingar hjá Íslandssjóðum


Íslandssjóðir hf. og VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, hafa gengið frá samkomulagi um að Íslandssjóðir taki yfir eignastýringu verðbréfasafna fyrir einkabankaþjónustu VÍB. Breytingarnar eru liður í almennum skipulagsbreytingum á starfsemi félagsins í ljósi aukinna umsvifa þess.

Sú starfseining sem sinnt hefur þessari þjónustu innan VÍB flyst yfir og sameinast safnastýringu Íslandssjóða. Samhliða verða gerðar breytingar á starfsemi Íslandssjóða sem felast í að efla og skerpa stefnu lykileininga félagsins, sjóðastýringar og safnastýringar. Á sama hátt verður hlutverk framkvæmdastjóra skýrt og eflt við að sinna innra eftirliti, gæðamálum, samskiptum við eftirlitsaðila og stjórn og stefnumótandi verkefnum.

Í tengslum við breytingarnar hefur Haraldur Örn Ólafsson verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslandssjóða hf. Haraldur Örn er hæstaréttarlögmaður og hefur sérhæft sig í löggjöf fjármagnsmarkaðarins. Hann hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði og hefur síðustu ár starfað á lögfræðisviði Íslandsbanka þar sem hann hefur unnið náið með yfirstjórn Íslandssjóða sem lögfræðilegur ráðgjafi. Áður starfaði hann sem sérfræðingur hjá Viðskiptaráðuneytinu á sviði fjármagnsmarkaðar þar sem hann m.a. var formaður í vinnuhóp sem vann að frumvarpi til núgildandi verðbréfaviðskiptalaga og kauphallarlaga. Þá hefur hann meðfram störfum sínum hjá Íslandsbanka setið í nefndum og starfshópum um breytingar á fjármálalöggjöfinni svo sem lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.

Haraldur Örn mun taka við starfi framkvæmdastjóra félagsins í september næstkomandi. Núverandi framkvæmdastjóri, Agla E. Hendriksdóttir mun gegna starfi framkvæmdastjóra fram að þeim tíma en mun svo leiða sjóðastýringarstarfsemi félagsins. Hún mun jafnframt verða staðgengill framkvæmdastjóra.

Nánari upplýsingar veitir Steinunn Bjarnadóttir, stjórnarformaður félagsins í síma: 440 4926