Afkoma HB Granda hf. árið 2012


Afkoma HB Granda hf. árið 2012

  • Rekstrartekjur samstæðunnar árið 2012 voru 197,3 m€, en voru 183,7 m€ árið áður
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – EBITDA – var 59,3 m€ (30,0%) en var 56,2 m€ (30,6%) árið áður
  • Hagnaður ársins var  14,9 m€, en var 37,0 m€ árið áður

 

Sjá lykiltölur í viðhengi

 

Rekstur ársins 2012

Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2012 námu 197,3 m€, samanborið við 183,7 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og virðisrýrnun (EBITDA) var 59,3 m€ eða 30,0% af rekstrartekjum, en var 56,2 m€ eða 30,6% árið áður.  Virðisrýrnun aflaheimilda að fjárhæð 21,6 m€ er gjaldfærð.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 3,8 m€, en voru neikvæð um 4,7 m€ árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 4,5 m€, en voru jákvæð um 2,4 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 18,4 m€, samanborið við hagnað að fjárhæð 43,2 m€ árið áður.  Tekjuskattur að fjárhæð 3,5 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum.  Hagnaður ársins varð því 14,9 m€. 

Meðalfjöldi ársverka árið 2012 var 844 en var 825 árið 2011.  Laun og launatengd gjöld námu samtals 58,3 m€, samanborið við 57,7 m€ árið áður (9,3 milljarðar króna sem er sambærileg fjárhæð og árið áður).

Alþingi samþykkti í lok júní 2012 ný lög um veiðigjöld sem fela í sér að veiðigjöld HB Granda hf. fjórfaldast frá síðasta fiskveiðiári.  Miðað við forsendur laganna nema áætluð veiðigjöld til greiðslu vegna fiskveiðiársins 2012/2013 12 milljónum evra (2,0 milljarðar króna á árslokagengi). Sérstakt veiðigjald mun stighækka á næstu árum þar til það verður 65% af sérstaklega reiknaðri rentu allra sjávarútvegsfyrirtækja samanlagt á fiskveiðiárinu 2016/2017 byggt á rekstarafkomu fyrirtækjanna árið 2014. Veruleg hækkun á veiðigjöldum félagsins lækkar rekstrarvirði þess.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 304,8 m€ í árslok 2012. Þar af voru fastafjármunir 240,2 m€ og veltufjármunir 64,6 m€.  Eigið fé nam 169,4 m€ og var eiginfjárhlutfall 55,6%, en var 48,8% í lok árs 2011. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 135,4 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 42,6 m€ árið 2012, en var 44,3 m€ árið áður.  Fjárfestingar námu 20,4 m€.  Fjármögnunarhreyfingar námu 34,8 m€.  Handbært fé lækkaði því um 12,6 m€ og var í árslok  8,6 m€.

 Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2012 (1 evra = 160,3) verða tekjur 31,6 milljarðar króna, EBITDA 9,5 milljarðar og hagnaður 2,4 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2012 (1 evra = 169,3) verða eignir samtals 51,6 milljarðar króna, skuldir 22,9 milljarðar og eigið fé 28,7 milljarðar.

 

Skipastóll og afli

Skipastóll HB Granda hf. var óbreyttur milli áranna 2011 og 2012.  Í febrúar 2013 tilkynnti félagið hins vegar áform um breytingar á skipastólnum.  Fyrirhugað er að á næsta fiskveiðiári muni félagið leggja einum frystitogara og breyta öðrum frystitogara í ísfisktogara. 

Árið 2012 var afli skipa félagsins 50 þúsund tonn af botnfiski og 149 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

 

Aðalfundur

Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 19. apríl í matsal félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00.

 

Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2013 verði vegna rekstrarársins 2012 greidd 1 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 1.698 millj. kr. (um 10 millj. evra á lokagengi ársins 2012), sem samsvarar 6,0% af eigin fé eða 6,7% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2012.  Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2013.  Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 19. apríl 2013 og arðleysisdagur því 22. apríl 2013.

Arðsréttindadagur er 24. apríl 2013 (arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá að loknu uppgjöri Verðbréfaskráningar Íslands fyrir kl. 12:00 þann 24. apríl 2013)

 

Fjárhagsdagatal

Aðalfundur                               19. apríl 2013

Birting ársskýrslu                      19. apríl 2013

Arðgreiðsludagur                      30. apríl 2013

Hálfsársuppgjör                        26.-30. ágúst 2013

Ársuppgjör 2013                       24.-28. mars 2014


Attachments

Tafla HB Grandi hf 2012.pdf Afkoma HB Granda hf 2012 Frettatilkynning.pdf Ársreikningur HB Granda hf 2012.pdf