Fimmtudaginn 4. apríl 2013 fer fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2012. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 18. apríl næstkomandi.
Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.325 millj. kr. á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta 498 millj. kr. EBITDA framlegð nam 27% hjá samstæðu og 14,1% í A hluta.
Rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 444 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 9 millj. kr.
Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 4.899 millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 3.539 millj. kr. Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 4.618 millj. kr. árið 2011. Aukning í rekstrartekjum nemur því 6,1% á milli ára. Aukningin er 6,9% í útsvari og fasteignasköttum, lækkun um 10% í framlögum jöfnunarsjóðs og aukning um 8,7% í öðrum tekjum.
Rekstrargjöld, að meðtöldum afskriftum, í samstæðu A og B hluta námu 3.961 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 3.256 millj. kr. Rekstrargjöld samstæðu hækka um 2,5% á milli ára og um 3,3% í A hluta.
Hækkun launa og launatengdra gjalda í samstæðu nam 3,7% eða um 76 millj. kr. Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 155 millj. kr. Að teknu tilliti til lífeyrisskuldbindinga og almennra kjarabreytinga lækkar launakostnaður á milli ára. Annar rekstarkostnaður samstæðu hækkar um 1,1% á milli ára. Í A hluta nam hækkun launa og launatengdra gjalda 4,1% og annars rekstrarkostnaðar um 3,3%.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 482 millj. kr. samanborið við 641 millj. kr. árið 2011. Áhrif verðlagsþróunar til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána nam 217 millj. kr. á árinu og áhrif vegna gengisþróunar til hækkunar á höfuðstól gengistryggðra lána 65 millj. kr. Við uppgjör vegna endurskiplagningar Eignarhaldsfélagsins Fasteignar voru færðar meðal fjármagnsliða áhrif af endurskoðun leigusamninga við félagið að upphæð 233 millj. kr. sem tekjur.
Fjárfesting í samstæðu A og B hluta, nam samtals 506 millj. kr. á árinu 2012 samanborið við 270 millj. kr. árið áður, seldar eignir á árinu námu 17 millj. kr. Afborganir langtímalána námu 477 millj. kr. á árinu og engin ný langtímalán voru tekin á árinu. Handbært fé hækkaði um 70 millj. kr. á árinu og nam 916 millj. kr. í árslok 2012.
Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2012 samtals að fjárhæð 11.281 millj. kr., þar af 9.723 millj. kr. fastafjármunir. Á meðal fastafjármuna eru færðar leigðar eignir samtals að fjárhæð 1.083 millj. kr. Langtímaskuldir við lánastofnanir eru 5.871 millj. kr., leiguskuldir 1.839 millj. kr., skammtímaskuldir 1.360 millj. kr. og lífeyrisskuldbinding 1.682 millj. kr. Skuldir samstæðunnar lækka milli ára um 275 millj. kr.
Eigið fé samstæðu var 530 millj. kr. í árslok 2012 samanborið við 11 millj. kr. í árslok 2011. Breyting á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati lóða og lendna að fjárhæð 74 millj. kr.
Nánari upplýsingar veita:
Páll Björgvin Guðmundson bæjarstjóri og
Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.