Árshlutareikningur Byggðastofnunar janúar - júní 2013


Árshlutareikningur Byggðastofnunar fyrir tímabilið janúar til júní 2012, var staðfestur af stjórn stofnunarinnar 26. ágúst 2013.

Hagnaður tímabilsins nam 184,2 milljónum króna. Til samanburðar nam tap sama tímabils 2012 206,4 milljónum króna. Skýrist þetta fyrst og fremst með því að 5. júní 2013 staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Byggðastofnunar gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., þar sem krafa Byggðastofnunar að fjárhæð 271,3 milljónir króna var viðurkennd sem forgangskrafa. Höfðu 238 milljónir króna af þeirri kröfu áður verið afskrifaðar. Alþingi samþykkti í fjárlögum 2012 heimild til að efla eigið fé Byggðastofnunar um allt að 2.000 milljónir króna. Af því framlagi voru 1.750 milljónir króna greiddar til stofnunarinnar í janúar 2012 en eftirstöðvarnar, 250 milljónir króna greiddar í janúar 2013.

Eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar er nú 14,92%.

Helstu niðurstöður úr árshlutareikningi Byggðastofnunar fyrir tímabilið janúar til júní 2013

  • Hagnaður stofnunarinnar á tímabilinu nam 184,2 mkr.
  • Hreinar vaxtatekjur voru 221,3 milljónir króna eða 42,0% af vaxtatekjum, samanborið við 317,4 mkr. (44,8% af vaxtatekjum) hreinar vaxtatekjur á sama tímabili 2012.
  • Laun og almennur rekstrarkostnaður námu 205 milljónum samanborið við 166 milljónir á sama tímabili 2012
  • Framlög í afskriftarreikning útlána, og matsbreyting hlutafjár var neikvætt um 79,7 milljónir en voru 339 milljónir 2012.
  • Eignir námu 15.847 milljónum og hafa lækkað um 891 milljón frá áramótum. Þar af voru útlán og fullnustueignir 12.551 milljón.
  • Skuldir námu 13.549 milljónir og hafa lækkað um 1.076 milljónir frá áramótum.
  • Veittar ábyrgðir utan efnahagsreiknings námu 71 milljón.
  • Eiginfjárhlutfall skv. lögum um fjármálafyrirtæki er 14,92% en skal að lágmarki vera 8%

Fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra er nú rekið mál þar sem tekist er á um lögmæti erlendra lána stofnunarinnar, þar sem verðtryggðu láni í íslenskum krónum hefur verið skuldbreytt með viðauka í lán í erlendri mynt. Málflutningur fer fram haustið 2013. Uppreiknuð lán stefnanda nema nú um 207,3 milljónum króna en verði fallist á kröfur hans munu þau lækka um allt að 50% Samsvarandi útlán hjá stofnuninni nema að kröfuvirði 911,3 milljónum króna. Ekki hefur verið fært sérstakt varúðarframlag á afskriftareikning vegna þessa.

Um stofnunina gilda lög um Byggðastofnun nr. 106/1999 og reglugerð nr. 347/2000. Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra. Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Stofnunin getur einnig tekið þátt í gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulagslögum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar í síma 455 5400 eða á netfanginu adalsteinn@byggdastofnun.is


Attachments

Fréttatilkynning v árshlutauppgjörs 2013.pdf Árshlutauppgjör 2013.06.30.pdf