Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2013 var lagður fram í bæjarráði í dag og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2013 og var rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði um 549 milljónir sem er um 8% af tekjum. Niðurstaðan er í samræmi við fjárhagsáætlun. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var afgangur af rekstri bæjarins um 31 milljónir eða 0,4% af tekjum.
Íbúar Mosfellsbæjar voru 9.075 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 1,1% á milli ára.
Hófleg skuldsetning
Kennitölur úr rekstri bera vott um trausta stöðu bæjarsjóðs. Veltufé frá rekstri eru 701 milljón sem eru 10% af rekstrartekjum. Eigið fé nemur 3.952 milljónum og er eiginfjárhlutfall 29%. Skuldaviðmið er 126% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.
83% af skatttekjum fara í fræðslu-, félags- og íþróttamál
Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 2.679 milljónir á árinu 2013 eða helmingur af skatttekjum. Til félagsþjónustu var veitt 1.112 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og æskulýðsmál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 633 milljónum.
Mikil uppbygging í Mosfellsbæ
Um 1.664 milljónum var varið í framkvæmdir á árinu 2013 til þess að styðja við þann vöxt og þá uppbyggingu sem er í sveitarfélaginu. Stærstu framkvæmdirnar voru bygging framhaldsskólans í Mosfellsbæ sem tók til starfa í ársbyrjun 2014, bygging 30 rýma hjúkrunarheimilis sem vígð var sumarið 2013, bygging nýs íþróttahúss, leikskóla og þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða. Á árinu var verulegum fjármunum jafnframt varið í viðhald og endurbætur á skólahúsnæði og íþróttaaðstöðu í bænum.
Reikningurinn verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 9. apríl og til síðari umræðu 23. apríl.
Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012