Reitir ljúka 68 milljarða endurfjármögnun


Reitir fasteignafélag hf. lauk í gær sölu á nýju hlutafé að andvirði 17 milljarða króna. Salan var liður í endurfjármögnun þess, en jafnframt hefur verið samið um 51 milljarðs lánsfjármögnun með sölu skuldabréfa og nýjum bankalánum. Reitir eru stærsta fasteignafélag landsins, með eignasafn sem metið er á um 100 milljarða króna. Eftir endurfjármögnun er eiginfjárhlutfall félagsins 38% og lánaþekja 56%. Endurfjármögnunin mun hafa veruleg áhrif á fjárhagsstöðu Reita II ehf., sem er 100% í eigu Reita fasteignafélags hf. en þau munu að fullu koma fram síðar í desembermánuði. Áformað er að tilkynna sérstaklega um þau áhrif í viku 53.

Eldri hluthafar Reita fasteignafélags hf. keyptu hlutabréf fyrir 5 milljarða, sem þeir áttu forgangsrétt að, en hlutabréf fyrir 12 milljarða voru seld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis-lífeyrissjóðs og lífeyrissjóða í eignastýringu hjá Arion banka, sem eignuðust við það 31% hlut í Reitum fasteignafélagi hf. Ráðgjafar lífeyrissjóðanna í viðskiptunum voru H.F. Verðbréf og LOGOS lögmannsþjónusta. Stærstu einstöku eigendur félagsins eru eftir sem áður Arion banki sem á 31% hlut og Landsbankinn með 22%.

Framangreindir lífeyrissjóðir keyptu einnig skuldabréf af Reitum fasteignafélagi hf. fyrir 25 milljarða króna. Þar er um að ræða nýjan skuldabréfaflokk sem Reitir fasteignafélag hf. gefur út. Jafnframt sömdu Reitir við Íslandsbanka um lánveitingu til félagsins sem nemur 26 milljörðum króna. Þessi fjármögnun er öll verðtryggð, til 30 ára og á hagstæðari kjörum en fyrri verðtryggð lán félagsins. Önnur vaxtaberandi lán Reita nema tæpum 5 milljörðum króna. Fjármagnskostnaður félagsins verður eftir þetta að meðaltali 4,0% af verðtryggðum lánum.

Stjórn Reita fasteignafélags hf. stefnir að því að óska eftir skráningu á hlutabréfum Reita og skuldabréfaflokki í Kauphöll Íslands í apríl á næsta ári. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka mun hafa umsjón með fyrirhugaðri skráningu og í tengslum við hana áformar bankinn að selja hluta af eignarhlut sínum í félaginu.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í síma 575 9000.