Seðlabanki íslands - Heimildir til fjárfestinga lífeyrissjóða erlendis á þessu ári


"Þessi tilkynning er aðgengileg á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is"

 

Seðlabanki Íslands fyrirhugar að veita lífeyrissjóðum, sem starfsleyfi hafa skv. V. eða XI. kafla laga nr. 129/1997, ásamt öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt mun heimild þessar aðila  nema kr. 10 milljörðum og kemur fjárfestingarheimildin til með að skiptast milli þeirra með þeim hætti að annars vegar verður horft til stærðar sem fær 70% vægi og hins vegar verði horft til hreins innstreymis sem fær 30% vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr nýjustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, þ.e. tölum frá árinu 2013. Mun undanþága miðast við að heimild hvers aðila gildi til loka þessa almanaksárs.

 

Gjaldeyrisinnstreymi að undanförnu og minni óvissa um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af setningu laga á Alþingi sem lúta að uppgjöri búa fallinna fjármálafyrirtækja og kynningu áforma varðandi svokallaðar aflandskrónur síðar á yfirstandandi almanaksári skapar svigrúm til fjárfestinga lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Í slíkum fjárfestingum felst þjóðhagslegur ávinningur þar sem lífeyrissjóðunum er gert mögulegt að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum á sama tíma og dregið er úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þegar fjármagnshöft verða leyst. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í kjölfar losunar fjármagnshafta.

 

Þeim lífeyrissjóðum og vörsluaðilum séreignarsparnaðar sem áhuga hafa á að sækja um undanþágu til framangreindra viðskipta er bent á að senda inn umsókn til gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu má finna á eftirfarandi vefslóð:

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=9087.

 

Umsóknir skulu berast Seðlabankanum bréflega á eftirfarandi heimilisfang:

Seðlabanki Íslands
b.t. Gjaldeyriseftirlits
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík

 

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.