Fjármálastöðugleiki 2015/2


"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is

 

Seðlabankinn hefur birt ritið Fjármálastöðugleiki 2015/2. Í ritinu er að venju fjallað um stöðu heimila og fyrirtækja auk umfjöllunar um rekstur og starfsumhverfi bankanna. Þá eru birtar niðurstöður álagsprófs sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið gerðu á vormánuðum á þremur stærstu viðskiptabönkunum. Tvö hefti koma út árlega og er þetta seinna heftið.

Til stóð að birta viðauka við ritið þar sem greint yrði frá tillögum kröfuhafa um hvernig þeir hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og mati á heildaráhrifum mögulegra nauðasamninga á grundvelli þeirra. Ekki verður unnt að ljúka mati á undanþágubeiðnum einstakra búa gömlu bankanna fyrr en endanleg gögn sem haft gætu áhrif á matið liggja fyrir.

Seðlabankinn mun birta sérstaklega niðurstöður mats á áhrifum undanþágubeiðnanna á greiðslujöfnuð, stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika þegar greiningu bankans er lokið og hún hefur verið kynnt fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd. Sérstakur kynningarfundur fyrir fréttamenn verður haldinn af því tilefni.

Meðfylgjandi eru upphafsorðin í formála Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra (sjálft ritið er aðgengilegt hér):

„Undir lok þessa árs mun efnahagsbati hafa staðið yfir í 5 ár samfleytt. Á þeim tíma hafa flestir vísar efnahagslífsins og forsendur fjármálastöðugleika færst í betra horf. Efnahagsreikningar fjármálafyrirtækja, heimila, fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild hafa smám saman orðið eðlilegri og eru enn að styrkjast og einfaldast. Á síðasta ári var uppi sjaldgæf staða í íslenskri hagsögu að því leyti að segja má að ríkt hafi innri og ytri stöðugleiki í þjóðarbúskapnum samtímis; lítil verðbólga, framleiðsla nálægt getu og nokkur viðskiptaafgangur. Fjármálafyrirtæki skiluðu góðum hagnaði við þessar aðstæður, lausafjárstaða rúm og eiginfjárhlutföll hækkuðu.

Aðstæður hafa batnað enn frekar á yfirstandandi ári. Hins vegar má sjá fyrstu merki þess að spenna sé aftur tekin að myndast í þjóðarbúskapnum sem gæti orðið uppspretta efnahagslegs óstöðugleika og áhættu í fjármálakerfinu þegar skyggnst er lengra fram á veginn. Er þá einkum horft til framvindunnar á vinnumarkaði, hækkunar fasteignaverðs og fyrstu merkja um aukið innstreymi erlends fjármagns. Hættan er þó ekki enn orðin mikil og nægt svigrúm er til þess að bregðast við því sem gæti verið í aðsigi. Að auki felur sterk eiginfjárstaða fjármálafyrirtækja í sér að viðnámsþróttur þeirra ætti að vera góður næst þegar gefur á bátinn. Í júnílok nam eiginfjárstaða stóru bankanna þriggja 26,6% af áhættugrunni.

Áhættan sem nærtækast er að bregðast við á þessu stigi snertir þó ekki ofangreinda áhættuþætti. Enn er verið að glíma við fortíðarvanda sem felst í því að stór hluti krafna erlendra aðila á innlenda eru skammtímakröfur sem ætla má að séu kvikar í eðli sínu en hafa frá nóvembermánuði 2008 verið hnepptar í fjármagnsfjötra. Framundan eru aðgerðir sem ætlað er að leysa úr þessum vanda, þ.e.a.s. nauðasamningar slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og útboð fyrir eigendur svokallaðra aflandskróna, þar sem þeir þurfa að velja á milli útgöngu eða bindingar til lengri tíma. Takist þessar aðgerðir eins og til er ætlast verður hægt að losa um fjármagnshöftin fljótlega í kjölfarið án óhóflegrar áhættu.“