Heimildir lífeyrissjóða til fjárfestingar erlendis


"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti."

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is

 

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að veita lífeyrissjóðum, sem starfsleyfi hafa skv. V. eða XI. kafla laga nr. 129/1997, ásamt öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar, sem hlotið höfðu staðfestingu fjármálaráðuneytisins á grundvelli 10. gr. laga. nr. 129/1997, undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, til fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt nemur heimildin 20 ma.kr. sem dreifist á fyrstu fjóra mánuði ársins. Í júlí s.l. var sömu aðilum veitt undanþága til erlendrar fjárfestingar að fjárhæð 10 ma.kr. sem dreifðist á síðari árshelming 2015.

Gjaldeyrisinnstreymi á nýliðnu ári og minni óvissa um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af samþykkt kröfuhafa slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja á frumvörpum til nauðasamninga hefur skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Í slíkum fjárfestingum felst þjóðhagslegur ávinningur þar sem lífeyrissjóðunum er gert mögulegt að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum á sama tíma og dregið er úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þegar fjármagnshöft verða losuð. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika við losun fjármagnshafta.  Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna næstu mánuði engin áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni.

Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna sem fær 80% vægi og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum sem fær 20% vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr síðustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, þ.e. tölum frá árinu 2014. Mun undanþágan miðast við að heimild hvers aðila gildi til 30. apríl 2016.

 

Lífeyrissjóðum og vörsluaðilum séreignarsparnaðar sem áhuga hafa á að sækja um undanþágu til framangreindra viðskipta er bent á að senda inn umsókn til gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu má finna á eftirfarandi vefslóð:

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=9087.

Umsóknir skulu berast Seðlabankanum bréflega á eftirfarandi heimilisfang:

Seðlabanki Íslands
b.t. Gjaldeyriseftirlits
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.