Mosfellsbær – Ársreikningur 2015

Afgangur af rekstri ársins


Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2015 var lagður fram í bæjarráði í dag og jafnframt tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn.                                  

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er í samræmi við það sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun. Tekjur ársins námu 8.227 milljónum,  launakostnaður 3.925 milljónum og annar rekstrar­kostnaður 3.401 milljónum. Rekstrarniðurstaða án afskrifta og fjármagnsliða nam því 901 milljónum eða 11% af tekjum. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur A og B hluta 28 milljónir.

Veltufé frá rekstri er 689 milljónir eða rúmlega 8% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 4.147 milljónum og eiginfjárhlutfall 25%. Skuldaviðmið er 122% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Skuldastaða sveitarfélagsins er vel viðunandi miðað við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Sú uppbygging er í samræmi við markmið sveitarfélagsins um góða heildstæða þjónustu við alla aldurshópa og fjölgun íbúa.

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn ábyrgur. Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 3.348 milljónir eða 52% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.300 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og æskulýðsmál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 715 milljónum. Samtals er því 84% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu- og íþróttamála.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 9.481 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 2% á milli ára. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 616 starfsmenn í 512 stöðugildum á árinu 2015.

 

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri:

„Ég er ánægður með hversu vel tókst að standa við upphaflegu fjárhagsáætlun ársins 2015. Launakostnaður hefur aukist mikið síðustu misseri og sést það glöggt á ársreikningnum sem nú er lagður fram. Sveitarfélög hafa í sameiningu kallað ákaft eftir viðræðum við ríkið um endurskoðun tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga sem ekki hefur enn skilað niðurstöðu. Mér finnst mikilvægt að því ákalli verði svarað. Ég er þó bjartsýnn á að starfsmönnum Mosfellsbæjar muni takast að halda áfram að reka Mosfellsbæ með hagsýni og ráðdeild að leiðarljósi.“

 

Ársreikningurinn verður tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 27. apríl 2016.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012


Attachments

Ársreikningur Mosfellsbæjar 2015_12042016 með áritun bæjarráðs.pdf