Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2016


"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is

 

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2016 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 2,1 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 7,8 ma.kr. fjórðunginn á undan. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður sem nam 25,6 ma.kr. en þjónustujöfnuður mældist hagstæður um 26,9 ma.kr. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 5,4 ma.kr. en rekstrarframlög óhagstæð um 4,5 ma.kr. Áhrif innlánsstofnana í slitameðferð á frumþáttatekjur eru hverfandi eftir samþykki nauðasamninga í desember síðastliðnum.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.215 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.347 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 131 ma.kr. eða sem nemur 5,9% af VLF. Nettóskuldir hækkuðu um 4 ma.kr. eða sem nemur 0,2% af VLF á milli ársfjórðunga. Á ársfjórðungnum komu til framkvæmda greiðslur innlánsstofnana í slitameðferð til kröfuhafa í formi reiðufjár en einnig voru gefin út skulda- og hlutabréf í félögunum sem afhent voru kröfuhöfunum. Í lok fjórðungsins nam skuld þeirra 598 ma.kr. sem síðar verður greidd eftir því sem sölu eigna vindur fram. Verðmat á skuldum félaganna í lok árs 2015 hefur verið endurskoðað frá síðustu birtingu. Skuldirnar eru nú á markaðsverði í stað nafnverðs áður. Þessi framsetning endurspeglar betur þá fjárhæð sem áætlað er að verði að endingu greidd til kröfuhafanna. Áhrif þessa er betri erlend staða þjóðarbúsins í lok ársins 2015 sem nemur 172 ma.kr. eða 8,8% af VLF.

Hrein fjármagnsviðskipti leiddu til um 14 ma.kr. lakari erlendrar stöðu. Þar af lækkuðu erlendar eignir um 528 ma.kr. og skuldir um 514 ma.kr. vegna viðskiptanna. Gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nam 103 ma.kr. á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar lækkaði gagnvart helstu gjaldmiðlum eða að jafnaði um 1,6% samkvæmt gengisskráningarvog.

 

Fréttin í heild með töflum og neðanmálsgreinum